Fótbolti

KSÍ stofnar vinnuhóp og vinnur með Deloitte í skoðun fjármála íslenskra félaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, Guðni Bergsson, formaður KSÍ, og Ari Edwald, forstjóri MS, skála í mjólk í tilefni af samingi um Mjólkurbikarinn.
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, Guðni Bergsson, formaður KSÍ, og Ari Edwald, forstjóri MS, skála í mjólk í tilefni af samingi um Mjólkurbikarinn. Vísir

Knattspyrnusamband Íslands hefur að sjálfsögðu miklar áhyggjur af stöðu fjármála félaganna vegna óvissunnar út af kórónuveirunni. Guðni Bergsson boðar samvinnu í þessum málum.

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands samþykkti á stjórnarfundi sínum í síðustu viku að skipa vinnuhóp með fulltrúum KSÍ, ÍTF, Leikmannasamtökunum, KÞÍ, og fulltrúa félaganna í neðri deildum, sem rýnir í fjármál félaga í kjölfar kórónuveirunnar.

Þetta staðfestir Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við vefsíðuna fótbolti.net.

„Við þurfum að takast á við þetta í sameiningu," sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ við Fótbolta.net í dag. Um helgina kynnti mennta- og menningarmálaráðuneytið að 750 milljónum króna verði bætt við til menningar og íþróttamála á árinu vegna kórónuveirunnar.

„Við ætlum að skipa vinnuhóp sem á að fara yfir ástandið. Við fengum auðvitað þessi úrræði stjórnvalda á laugardaginn þegar þau voru kynnt og erum að greina hvernig það nýtist okkur. Það er ekki allt orðið klárt þar, hvernig sjóðurinn mun virka fyrir menningar og íþróttageirann. Við þurfum að fá nánari útfærslu á því og það mun taka einhvern tíma, sagði Guðni í viðtalinu við fótbolta.net en hann vill líka skoða hvernig úrræði til launþega og verktaka sem geta nýst í knattspyrnuhreyfingunni.

„Við erum að vinna með Deloitte að greina það. Við fundum í dag til að fara yfir málið og skoða hvað við getum gert sem hreyfing til að vinna sem best úr þessari stöðu," sagði Guðni Bergsson en það má lesa allt viðtalið við hann hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×