Erlent

Spánverjar loka hótelum og senda alla heim

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar neita manni að fara yfir landamæri Spánar og Frakklands í bænum Irun.
Lögregluþjónar neita manni að fara yfir landamæri Spánar og Frakklands í bænum Irun. EPA/JAVIER ETXEZARRETA

Yfirvöld Spánar hafa tekið þá ákvörðun að loka hótelum og öðrum gististöðum á landinu fyrir þriðjudaginn í næstu viku. Því er verið að vísa fjölda ferðamanna úr landi á næstu dögum. Fjöldi smitaðra hefur tekið mikið stökk þar í landi.

Tilkynnt var í dag að staðfestum smitum á Spáni séu nú 13.716 og að 558 hafa dáið. Það er töluverð hækkun á milli daga. Í gær höfðu 11.178 smitast og 491 dáið.

Lögreglan á Spáni hefur handtekið minnst 88 á undanförnum dögum fyrir að brjóta gegn neyðarlögum sem sett voru á á laugardaginn. Hald hefur verið lagt á 68.913 hlífðargrímur, 5.053 hlífðargleraugu og 5.815 hanska sem fólk hafði hamstrað.

Þessi búnaður verður, samkvæmt frétt El País, færður til heilbrigðisyfirvalda.

Nýja kórónuveiran virðist hafa náð mikilli dreifingu á dvalarheimili í Madríd þar sem minnst 19 eldri borgarar hafa dáið vegna veirunnar. El País segir að búist sé við því að fleiri muni deyja þar en minnst 75 íbúar og starfsmenn hafa greinst með veiruna sem veldur sjúkdómnum Covid-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×