Skoðun

Er tími fjar­vinnu runninn upp?

Kristín I. Hálfdánardóttir skrifar

Undanfarnar vikur hafa landsmenn uppgötvað ýmislegt merkilegt. Nú vita allir hvað Teams og Zoom er og flestir hafa lofsamað tímasparnaðinn sem fólginn er í því að þurfa hvorki að ferðast á né af fundum. Þar að auki lýkur fundum mun fyrr – við segjum það sem segja þarf og höldum svo áfram að vinna. Margir stjórnendur hafa tekið eftir því að fjarfundir gera fólki erfiðara að grípa fram í án þess að það sé augljóst. Þar af leiðandi eru fundirnir skilvirkari og stjórnendur fá meira út úr starfsmönnum sínum. Margir hafa nefnilega tekið eftir því að innhverfir starfsmenn blómstra á fjarfundum og tala öruggari heiman frá sér.

Getur einmitt verið að tækifærið í Covid-krísunni sé að við gerum alvöru úr því að fjölga stöðugildum í fjarvinnu? Nú vitum við að þetta er hægt og við vitum líka að við getum náð frábærum árangri með því að vinna fjarri höfuðstöðvum (sérstaklega ef við erum ekki með börnin okkar á handleggnum og heimaskóla í gangi).

Hugtakið fjarvinna kom fram á áttunda áratugnum í Bandaríkjunum og hefur þróast og breyst í takt við tækniframfarir síðustu fjóra áratugi. Hugmyndin virðist ekki hafa fest rætur á Íslandi fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar og nú er lag að hrinda henni í framkvæmd.

Undirrituð skrifaði síðasta vor lokaritgerð í viðskiptafræði um fjarvinnu á Íslandi. Litið var á fræðilega umræðu, fyrirliggjandi skýrslur, rannsóknir og umræðu í fjölmiðlum. Á sama tíma leitaðist höfundur við að svara spurningum um þróun hugtaksins og stöðu þess hér á Íslandi. Niðurstöðurnar voru skýrar. Í fyrsta lagi getur fjarvinna verið gagnleg leið fyrir stjórnendur til að gefa starfsmönnum betra jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Í öðru lagi geta fjarvinnustörf stuðlað að jákvæðri byggðaþróun og gefið háskólamenntuðu fólki möguleika á að gegna draumastarfinu sínu hvar á landinu sem það kýs að búa. Í þriðja lagi gefur fjarvinna fyrirtækjum tækifæri til að ráða það sérhæfða starfsfólk sem það vantar óháð búsetu. Síðast en ekki síst vilja öll fyrirtæki spara húsnæðiskostnað. Þannig hagnast allir á því að fjarvinna sé í boði í fyrirtækjum hvort sem um ræðir höfuðborgarsvæðið eða á landsbyggðinni.

Ritgerðin leiddi í ljós ákveðna stöðnun bæði í umræðu og framkvæmd þessara mála hér á Íslandi. Hugmyndin hefur ekki að verulegu marki drifið frá kenningum og kosningaloforðum yfir í framkvæmd. Vitaskuld vinna fjölmargir landsmenn heima á hverjum degi án þess að það sé mælt. Stjórnvöld vilja stuðla að jákvæðri byggðaþróun og hafa oftar en einu sinni haft fjarvinnustörf sem verkefnismarkmið í byggðaáætlunum. Þrátt fyrir það vantar eftirfylgni og sérstaklega framkvæmd. Margt bendir því til þess að fjarvinna sé munaðarlaust fyrirbæri hér á landi en nú er tækifæri til aðgerða. Hversu mörg störf á landsbyggðinni verður hægt að búa til eftir heimsfaraldurinn, nú þegar við vitum að þetta er hægt?

Höfundur er viðskiptafræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×