Fótbolti

Fékk háa sekt fyrir að mæta á röngum bíl á æfingu

Sindri Sverrisson skrifar
Það skiptir máli hvaða bifreið Kingsley Coman lætur sjá sig á.
Það skiptir máli hvaða bifreið Kingsley Coman lætur sjá sig á. INSTAGRAM/@KING_COMAN

Kingsley Coman þurfti að biðjast afsökunar og greiða 50.000 evru sekt, tæplega 8 milljónir króna, fyrir að mæta á röngum bíl á æfingu Bayern München.

Þýsk knattspyrnulið eru farin að æfa á nýjan leik eftir hlé vegna kórónuveirufaraldursins og samkvæmt AFP standa vonir til að hægt verði að byrja að spila á nýjan leik snemma í maí. Það yrði þó gert fyrir luktum dyrum þar sem að þýsk stjórnvöld hafa bannað fjöldasamkomur út ágúst.

Coman, sem er 23 ára, mætti á æfingu Bayern á McLaren 570S Spider bifreið sinni en hefði betur sleppt því. Leikmenn Bayern eiga nefnilega reglum samkvæmt að mæta á Audi-bifreiðum. Audi á 8,33 prósenta hlut í Bayern München.

Hasan Salihamidzic, íþróttastjóri Bayern, mun samkvæmt Bild hafa lesið yfir leikmannahópnum vegna brota á reglunni um að mæta á æfingar í Audi. Engu að síður hafa Philippe Coutinho, Niklas Sule og nú Coman brotið þessa reglu á árinu. Coman hefur beðist afsökunar á hegðun sinni:

„Ég vil biðja félagið og Audi afsökunar á að hafa ekki komið á æfingu í bíl fyrirtækisins. Ástæðan var skemmdur hliðarspegill í Audi-bílnum mínum. Þetta voru samt mistök, auðvitað skil ég það. Til að bæta upp fyrir þetta mun ég mæta í Audi-verksmiðjuna í Ingolstadt og gefa eiginhandaráritanir í klukkutíma eins fljótt og hægt er og hjálpa þannig vinnuveitendum mínum að fá athygli,“ sagði Coman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×