Innlent

Gunn­laugur krefst 60 milljóna frá Borgar­byggð vegna upp­sagnarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Borgarnesi.
Frá Borgarnesi. Vísir/Egill

Gunnlaugur A. Júlíusson, fyrrverandi sveitarstjóri Borgarbyggðar, hefur stefnt sveitarfélaginu og krafið það um 60 milljónir króna í bætur.

Í fundargerð byggðaráðs sveitarfélagsins kemur fram að stefnan hafi verið lögð fram fyrsta dag aprílmánaðar, en RÚV segir frá því að krafan hljóði upp á 60 milljónir króna.

Í bókun byggðaráðs Borgarbyggðar kemur fram kemur fram að ráðið harmi efni stefnunnar og að ítrustu kröfur Gunnlaugs séu langt umfram þær kröfur sem sveitarfélagið telur réttmætar. Sveitarstjórn hafi ávallt lagt áherslu á að gengið hafi verið frá starfslokum Gunnlaugs í samræmi við viðeigandi lög og ráðningarsamning.

Gunnlaugur A. Júlíusson.Vefur Borgarbyggðar

Sérlega íþyngjandi og bakaði honum andlegt tjón

RÚV segir að í stefnunni komi fram að Gunnlaugur telji framferði Borgarbyggðar í tengslum við málið hafa verið sérlega íþyngjandi og bakað honum andlegt tjón, rýrt starfsheiður hans og álit annarra á honum. Málið hafi því valdið honum mikilli vanlíðan.

Fjártjónskrafa sveitarstjórans fyrrverandi er sögð nema rúmum 50 milljónum króna, þar sem gerð er krafa um launaleiðréttingu, greiðslu orlofs og að sveitarfélagið greiði kostnað vegna lögmannsaðstoðar. Þá er farið fram á fjórar milljónir í miskabætur.

Verður gripið til varna

Byggðaráð segir að sé hvorki eðlilegt né heimilt að greitt verði úr sveitarsjóði og verði því tekið varna. „Biðlaunatímabil er enn yfirstandandandi og verður lokagreiðsla greidd í næsta mánuði, þar sem lokauppgjör fer fram af hálfu sveitarfélagsins og virtar verða allar skuldbindingar samkvæmt lögum og ráðningarsamningi,“ segir í bókuninni.

Gunnlaugi var sagt upp störfum í nóvember síðastliðinn, en hann tók við starfi sveitarstjóra árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×