Handbolti

Aron verður með Barcelona í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson ætti að geta leikið með Barcelona í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu.
Aron Pálmarsson ætti að geta leikið með Barcelona í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu. getty/Martin Rose

Aron Pálmarsson er í leikmannahópi Barcelona sem mætir Paris Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í Köln í dag.

Aron hefur glímt við hnémeiðsli og í Sportpakkanum í gær sagði Gunnar Magnússon, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, að óvíst væri hvort hann yrði með í leikjunum gegn Portúgal í undankeppni EM og svo á HM í Egyptalandi í næsta mánuði.

Þrátt fyrir meiðslin er Aron í sextán manna hópi Barcelona sem mætir PSG í dag. Í frétt á heimasíðu Barcelona segir að Xavi Pascual, þjálfari liðsins, hafi úr öllum sínum leikmönnum að velja nema danska hornamanninum Casper Mortensen sem er meiddur. Jure Dolenec, Mamadou Diocou og Haniel Langaro verða utan hóps í dag.

Úrslitahelgi Meistaradeildarinnar fer venjulega fram um mánaðarmótin maí júní en var frestað um nokkra mánuði vegna kórónuveirufaraldursins og fer nú fram milli jóla og nýárs.

Leikur Barcelona og PSG hefst klukkan 17:00. Klukkan 19:30 mætast svo Kiel og Veszprém í seinni undanúrslitaleiknum.

Aron lék áður með Kiel og Veszprém og fór með báðum liðum í úrslit Meistaradeildarinnar. Hann varð Evrópumeistari með Kiel 2010 og 2012.

Barcelona varð síðast Evrópumeistari 2015 þegar Guðjón Valur Sigurðsson lék með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×