Handbolti

Steinunn og Aron handboltafólk ársins 2020

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steinunn Björnsdóttir fékk verðlaun sín, fyrir að vera handboltakona ársins 2020, afhent í dag á skrifstofu HSÍ. Aron Pálmarsson fær sín verðlaun þegar íslenska landsliðið kemur saman fyrir HM 2. janúar næstkomandi.
Steinunn Björnsdóttir fékk verðlaun sín, fyrir að vera handboltakona ársins 2020, afhent í dag á skrifstofu HSÍ. Aron Pálmarsson fær sín verðlaun þegar íslenska landsliðið kemur saman fyrir HM 2. janúar næstkomandi. hsí

Stjórn Handknattleikssambands Íslands hefur valið Steinunni Björnsdóttur og Aron Pálmarsson handknattleiksfólk ársins 2020. Þetta er í fimmta sinn sem Aron hlýtur þessa nafnbót en í fyrsta sinn sem Steinunn fær hana.

Steinunn er fyrirliði Fram sem varð deildar- og bikarmeistari í vor. Hún lék alla átján leiki Fram í Olís-deildinni og skoraði 96 mörk auk þess að vera í lykilhlutverki í vörn liðsins.

Steinunn var kjörin besti leikmaður ársins og besti varnarmaðurinn auk þess að vera í liði ársins hjá Seinni bylgjunni.

Steinunn, sem er 29 ára, hefur leikið 35 landsleiki og skorað í þeim 27 mörk. Þess má geta að hún var valin íþróttakona Reykjavíkur í síðustu viku.

Aron leikur með Barcelona sem varð þrefaldur meistari á síðasta tímabili auk þess sem Börsungar komust í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu sem verður leikin milli jóla og nýárs.

Aron var í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu sem lenti í 11. sæti á EM í janúar. Hann átti meðal annars stórkostlegan leik í sigrinum á Dönum, 31-30, í fyrsta leik mótsins þar sem hann skoraði tíu mörk og gaf níu stoðsendingar.

Aron, sem er þrítugur, er fyrirliði landsliðsins í dag og hefur alls leikið 149 landsleiki og skorað 579 mörk. Hann hefur leikið með landsliðinu síðan 2008 og sem atvinnumaður erlendis síðan 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×