Innlent

Sérfræðingar meta stöðuna í birtingu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skriðan á föstudag skildi eftir sig mikla eyðileggingu á Seyðisfirði.
Skriðan á föstudag skildi eftir sig mikla eyðileggingu á Seyðisfirði. Vísir/Egill

Rýmingar eru enn í gildi á Seyðisfirði vegna hættu á aurskriðum og 276 íbúar bíða þess að snúa heim. Allt virðist hafa verið með kyrrum kjörum á svæðinu í nótt, að sögn ofanflóðasérfræðings, og úrkoma hefur verið lítil síðasta sólarhring. Staðan verður metin þegar líða tekur á daginn.

Magni Hreinn Jónsson ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að staðan á Seyðisfirði sé, að því er hann best veit, óbreytt síðan í gær. Ofanflóðasérfræðingar haldi áfram vettvangsvinnu í birtingu.

Jóhann K. Jóhannsson samskiptastjóri almannavarna segir í samtali við Vísi að fundað verði um stöðuna í dag. 581 íbúum Seyðisfjarðar var gert að yfirgefa heimili sín á föstudag eftir að stór skriða féll á bæinn síðdegis. 305 íbúar fengu að snúa aftur heim í gær. Jóhann segir að enn sé of snemmt að segja til um það hvort allir, eða hluti, þeirra 276 sem eftir eru fái að fara heim í dag.

Ekki náðist í Kristján Ólaf Guðnason yfirlögregluþjón á Austurlandi við vinnslu fréttarinnar en hann segir í samtali við Ríkisútvarpið í morgun að þetta skýrist í dag. Þá sé hugsanlegt að fólk fái að fara inn á svæðið í fylgd björgunarsveita í dag.

Fram kom í tilkynningu frá almannavörnum í gærkvöldi að enn væri hætta á skriðuföllum á ákveðnum svæðum og þau verði því áfram rýmd. Fljótlega verði opnuð þjónustumiðstöð almannavarna fyrir íbúa á Seyðisfirði.

Þá áréttar aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi í tilkynningu í morgun að allir gæti að sóttvörnum í kringum þá umferð og vinnu sem stendur yfir á Seyðisfirði og á Egilsstöðum. Mikilvægt sé að allir noti grímu, gæti að fjarlægðarmörkum og handþvotti. Einnig er áréttuð sú krafa sóttvarnayfirvalda að enginn komi til aðstoðar á Seyðisfjörð án þess að hafa verið skimaður fyrir kórónuveirunni.

Veður hefur verið milt á Seyðisfirði í nótt og í morgun, samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar. Lítil sem engin úrkoma hefur mælst; engin í nótt en örlítil í morgun. Þá er spáð þurru veðri á Austfjörðum í dag en slyddu eða rigningu seint í nótt. Úrkomulítið síðdegis á morgun og vægt frost.


Tengdar fréttir

Þjónustu­mið­­stöð al­manna­varna verður opnuð á Seyðis­firði

Almannavarnir munu fljótlega opna þjónustumiðstöð fyrir íbúa á Seyðisfirði. Verkefni slíkrar miðstöðvar felst meðal annars í upplýsingagjöf til almennings og þjónustu við þá aðila sem hafa orðið fyrir tjóni og þá sem hættan hefur haft önnur bein áhrif á. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.

Synti út úr skriðunni eftir að hafa bjargað manni úr björgunar­sveitar­bíl

„Ég sé skriðuna fara af stað. Hún byrjar að renna niður. Ég horfi niður og þar sé ég björgunarsveitarbíl sem var við lokunarpóst, sem ég veit að mun lenda í skriðunni. Eftir það sé ég bara björgunarsveitarbílinn. Þó svo að hús hafi farið fram hjá á sama tíma þá sá ég aldrei húsið, ég sá bara björgunarsveitarbílinn því ég vissi að hann væri mannaður.“

Ráðherrar heim­sækja Seyðis­fjörð á þriðju­dag

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stefnir að því að fara til Seyðisfjarðar ásamt öðrum ráðherrum á þriðjudag til að meta aðstæður. Áður þurfa ráðherrar og fylgdarlið að fara í skimun fyrir kórónuveirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×