Erlent

Fimm þúsund ára egypskur munur fannst í vindla­kassa í Skot­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Talið er að munurinn hafi verið notaður við byggingu Píramídans mikla í Gísa.
Talið er að munurinn hafi verið notaður við byggingu Píramídans mikla í Gísa. Háskólinn í Aberdeen

Um fimm þúsund ára gamall fornmunur sem upphaflega fannst í Dronningarsal Píramídans mikla í Gísa hefur komið í leitirnar í vindlakassa í skosku borginni Aberdeen. Vonast er til að hægt verði að varpa nýju ljósi á byggingu píramídans.

BBC segir frá því að munurinn sé talinn vera frá tímabilinu milli 3341 til 3094 fyrir Krist.

Hann fannst fyrir tilviljun þegar starfsmaður Háskólans í Aberdeen var að fara í gegnum geymslur háskólans. Munurinn er úr tré og er nú í nokkrum hlutum, og talinn hafa verið notaður við byggingu Píramídans. Er fundurinn sagður vera „mjög þýðingarmikill“.

Munurinn fannst í gömlum vindlakassa.Háskólinn við Aberdeen

Munurinn fannst í vindlakassa með áletruðum egypskum fána þegar verið var að fara yfir asíska safnmuni háskólans. „Þegar ég skoðaði svo gögn úr egypska hluta safnsins þá gerði ég mér grein fyrir því um leið að munurinn hafi verið fyrir allra augum en á röngum stað,“ segir Abeer Eladany, starfmaður háskólans.

„Ég er fornleifafræðingur að mennt og hef unnið við uppgröft í Egyptalandi, en mér datt ekki í hug að það yrði hér í norðausturhluta Skotlands sem ég myndi finna eitthvað svo mikilvægt er varðar arfleifð heimalands míns.“

Munurinn er um þrettán sentimetra, og úr sedrusvið og var í hópi þriggja muna sem fundust í Drottningarsal Píramídans mikla árið 1872 af verkfræðingnum Waynman Dixon. Hinir tveir munirnir - bolti og krókur - eru í vöslu British Museum í London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×