Handbolti

Guðmundur talar um byltingu á stöðu yngri leikmanna landsliðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson er á leið með á sitt þriðja stórmót með Ísland síðan hann tók við liðinu í þriðja sinn 2018.
Guðmundur Guðmundsson er á leið með á sitt þriðja stórmót með Ísland síðan hann tók við liðinu í þriðja sinn 2018. vísir/vilhelm

Guðmundur Guðmundsson kveðst afar ánægður með þau skref sem yngri leikmenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta hafa tekið á síðustu árum og talar um byltingu í þeim efnum.

„Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir mig að ræða þetta. Það sem ég hef séð síðan ég tók við liðinu 2018 er ákveðin bylting,“ sagði Guðmundur á blaðamannafundi í gær þar sem hann tilkynnti æfingahóp Íslands fyrir HM í Egyptalandi.

„Ég ræddi við marga ykkar þegar ég tók við liðinu og við stóðum frammi fyrir því að byggja upp nýtt lið. Það fórum við svo sannarlega í. Það sem hefur svo gerst í kjölfarið að margir af þessum yngri leikmönnum eru að fara á sitt þriðja stórmót. En það er ekki bara það sem hefur gerst. Þeir hafa líka tekið skref inn í atvinnumennsku og bætt sig stórkostlega þar tel ég. Það er hægt að tala um byltingu hvað þetta varðar.“

Guðmundur fagnar því hversu margir leikmenn hafa farið í atvinnumennsku síðan hann tók við landsliðinu.

„Árið 2018 voru fjölmargir leikmenn heima og ég man að ég hélt úti æfingum með þá og kom þeim inn í þá leikaðferðafræði sem við stöndum fyrir. Síðan höfum við horft á þróunina. Alltaf fara fleiri erlendis og hafa náð að bæta og styrkja sig og verða hæfari og betri leikmenn,“ sagði Guðmundur.

„Þetta er rosalega ánægjuleg þróun fyrir mig sem landsliðsþjálfara sem hefur fengið að koma að þessu verkefni. Ég talaði alltaf um 3-4 ár, að við myndum sjá breytingar á hópnum og það hefur gerst. Við höfum markvisst gefið þeim tækifæri og margir kornungir eru að fara á sitt þriðja stórmót. Það eru ekki mörg landslið í heiminum sem hafa farið þessa leið jafn markvisst og íslenska liðið.“

Ísland er í riðli með Portúgal, Alsír og Marokkó á HM. Áður en íslenska liðið heldur til Egyptalands mætir það Portúgal í tveimur leikjum í undankeppni EM 2022.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×