Innlent

Fá fylgd heim til að gera ráðstafanir og ná í nauðsynjar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Myndir teknar á Seyðisfirði í gær.
Myndir teknar á Seyðisfirði í gær. Davíð Kristinsson

Ríkislögreglustjóri lýstI í gærkvöldi yfir hættustigi vegna skriðufalla á Seyðisfirði. Það var gert í samráði við lögreglustjórann á austurlandi og Veðurstofu Íslands. Að auki er óvissustig á öllu Austurlandi vegna skriðuhættu.

Mikið hefur rignt í landshlutanum og er spáð áframhaldandi rigningu fram að helgi. Aurskriður féllu í byggð á Seyðisfirði í gærdag og í gærkvöldi og var um 120 manns gert að yfirgefa heimili sín vegna þess. 

Var það gert til að draga úr líkum á slysum á fólki en samkvæmt tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi má búast við eignatjóni. 

Í tilkynningunni segir einnig að jarðvegur í neðri hlutum hlíða á Austurlandi sé orðinn vatnsmettaður. Skriðuhætta sé á svæðinu. Þá hafa skriður fallið neðarlega í hlíðum á Eskifirði, Seyðisfirði og við utanverðan Fáskrúðsfjörð, svo vitað er. 

Athugað verður með ástandið á svæðinu nú í birtingu og á heimasíðu Múlaþings segir að þeir íbúar sem þurftu að yfirgefa heimili sín í gær geti komið í björgunarsveitarhúsið núna klukkan átta og fengið fylgd með björgunarsveitarfólki eða lögreglu heim til sín til að gera nauðsynlegar ráðstafanir og ná í nauðsynjar. 

Þá verður stöðufundur tekin nú í morgunsárið og má búast við tilkynningu um ástandið um klukkan tíu.


Tengdar fréttir

Enn falla aurskriður á Seyðisfirði

Ný aurskriða féll á Seyðisfirði skömmu fyrir níu í kvöld. Hún féll á sömu slóðum og aurskriðurnar fyrr í kvöld og fór hún neðarlega. Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir skriðuna hafa fallið að efstu húsum svæðisins en það þurfi að skoða það betur í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×