Skoðun

Sá er sjálfstæður sem stendur undir sjálfum sér

Áslaug Hulda Jónsdóttir skrifar

Sameining sveitarfélaga hefur verið til umræðu svo langt sem ég man aftur.

Minni sveitarfélög þurfa að sameinast ef við viljum efla sveitarstjórnarstigið, allt annað hamlar framþróun og sameiningarkrafti þess. Með óbreyttu ástandi erum við að fara illa með skattfé, yfirstjórnin er dýr og engin sanngirni er í því að íbúar annarra sveitarfélaga niðurgreiði rekstur sveitarfélags sem stendur ekki undir sinni eigin grunnþjónustu og rekstri.

Einhverjir þingmenn hafa sett sig á móti þvinguðum sameiningum og tala um frelsið. Fínt. En á sama tíma og við höfum sveitarfélög sem standa ekki undir grunnrekstri sínum og hátt í helmingur tekna þeirra kemur úr Jöfnunarsjóði, verðum við að staldra við. Við þurfum að sama skapi svör við því hvers vegna ekki eru settir enn öflugri hvatar inn í kerfi Jöfnunarsjóðs þannig að það verði einfaldlega of hagkvæmt að sameinast til að gera það ekki, þá mun sameining sveitarfélaga ganga harðar. Höfum það líka alveg á hreinu að sameining sveitarfélaga snýst um hagræðingu með því að sameina stjórnsýslu. Hún snýst ekki um að sameina íþróttafélög eða þorrablót. Í Reykjanesbæ keppa Keflavík og Njarðvík áfram innbyrðis í körfunni og í Garðabæ, eftir sameiningu Garðabæjar og Álftaness, eru enn haldin tvö þorrablót. Það er lágmark að umræddir þingmenn standi við orð sín og leggi loksins til breytingar á Jöfnunarsjóði sem oft á ekkert skylt með jöfnuði þar stór hluti af útgjöldum ríkisins vegna byggðamála fer í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Að lokum örlítið meira um frelsið og Jöfnunarsjóð. Af hverju er sveitarfélagi eins og Garðabæ refsað fyrir ráðdeild í rekstri og lágar álögur? Það er nefnilega þannig að ef álögur eru ekki í botni og íbúar sveitarfélags borga ekki hæstu mögulegu skatta þá lækka greiðslur Jöfnunarsjóðs til viðkomandi sveitarfélags. Þetta skerðir sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Hvar er frelsið og er pólítík í regluverki Jöfnunarsjóðs?

Höfundur er formaður bæjarráðs Garðabæjar




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×