Erlent

Metfjöldi smitaðra í Danmörku og aðgerðir hertar víðar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mette Frederiksen forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar standa í ströngu vegna vaxandi fjölda smitaðra í Danmörku.
Mette Frederiksen forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar standa í ströngu vegna vaxandi fjölda smitaðra í Danmörku. EPA

Heilbrigðisyfirvöld í Danmörku hafa ákveðið að láta hertar aðgerðir, sem kynntar voru í vikunni, ná til 69 af 98 sveitarfélögum landsins. Ástæðan er metfjöldi kórónuveirusmitaðra sem greindust í landinu í gær.

3132 greindust smitaðir í Danmörku í gær en tekin voru rúmlega 111 þúsund sýni. Báðar tölur eru met í þessari bylgju faraldursins. Þegar verst lét hjá Dönum í fyrstu bylgju greindust um 3700 smitaðir á einum sólarhring en mun færri sýni voru tekin. DR greinir frá.

Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra sagði á blaðamannafundi í dag að hertu aðgerðirnar sem tóku gildi í 38 sveitarfélögum í gær, og náðu til 38 sveitarfélaga, giltu nú í 69 sveitarfélögum.

Öllum menningarstofnunum, börum og veitingastöðum verður nú lokað í sveitarfélögunum 69. Þá verða elstu börn grunnskóla send heim og fá kennslu í gegnum netið.

Veitingastaðir, kaffihús og aðrir sem bjóða veitingar skulu hafa lokað. Það má þó áfram selja til að taka með. Íþróttastarf innandyra og annað félagsstarf skal ekki fara fram. Atvinnuíþróttir eru undanskildar.

Líkamsræktarstöðvar eru lokaðar og sundlaugar og spilavíti sömuleiðis. Þá er starsfólk hvort sem er hjá einkaaðilum eða hinu opinbera hvatt til að vinna að heiman sem kostur er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×