Fótbolti

Albert og fé­lagar geta komist á­fram í Evrópu­deildinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson fagnar einu marka sinna fyror AZ Alkmaar á tímabilinu.
Albert Guðmundsson fagnar einu marka sinna fyror AZ Alkmaar á tímabilinu. Getty/JAN DEN BREEJEN

Íslendingaliðið AZ Alkmaar frá Hollandi á ágæta möguleika á að tryggja sér sæti í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

Átján félög hafa tryggt sér sæti í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar en í kvöld kemur í ljós hvaða sex félög bætast í hópinn. Átta síðustu liðin koma síðan úr Meistaradeildinni.

Rúnar Alex Rúnarsson og félagar í Arsenal eru eitt af þessum átján liðum sem eru komin áfram en KR-ingurinn hefur varið mark Arsenal í síðustu þremur leikjum liðsins í keppninni og aðeins fengið á sig eitt mark. Arsenal mætir Dundalk á útivelli í kvöld.

Albert Guðmundsson og félagar í hollenska liðinu AZ Alkmaar eru í hörku baráttu um sæti í útsláttarkeppninni en AZ Alkmaar, Napoli og Real Sociedad berjast um tvö laus sæti í lokaumferðinni.

Napoli er efst með tíu stig en Real Sociedad og AZ Alkmaar hafa bæði átta stig. Napoli kemst áfram með því að ná í að minnsta kosti eitt stig í leik sínum á móti Real Sociedad á heimavelli.

AZ Alkmaar kemst áfram með sigri á Rijeka á útivelli eða ef liðið fær fleiri stig en Real Sociedad. Real Sociedad stendur nefnilega betur í innbyrðis viðureignum.

Albert Guðmundsson skoraði tvö mörk í 4-1 sigri á Rijeka í fyrri leik liðanna og fær vonandi að spreyta sig í Króatíu í kvöld. Mörkin hans síðan síðast má sjá hér fyrir neðan.

Leikir Arsenal og AZ Alkmaar verða sýndir beint en þeir hefjast báðir klukkan 17.55. Leikur Dundalk-Arsenal er á Stöð 2 Sport 4 en leikur Rijeka-AZ Alkmaar á Stöð 2 Sport 2.

Þriðja Íslendingaliðið i beinni í kvöld er síðan lið CSKA Moskva í Rússlandi þar sem spila Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson. CSKA Moskva á ekki lengur möguleika á að komast áfram upp úr sínum riðli en liðið hefur ekki unnið leik í keppninni og er bara með þrjú stig úr fimm leikjum.

Leikur Dinamo Zagreb og CSKA Moskva verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4 og hefst útsendingin klukkan 19.50.

Fjórða útsending kvöldsins frá Evrópudeildinni verður svo leikur Tottenham og Antwerpen sem er á Stöð 2 Sport 2 frá klukkan 19.50.

Tottenham er búið að tryggja sig áfram eins og belgíska liðið. Hér fyrir neðan má yfirlit yfir stöðu liðanna.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×