Erlent

Fyrsti maðurinn til að rjúfa hljóð­múrinn fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Chuck Yaeger hjá Bell X-1 vélinni árið 1947.
Chuck Yaeger hjá Bell X-1 vélinni árið 1947. Getty

Bandaríski flugmaðurinn Chuck Yeager, sem var fyrsti maðurinn til að rjúfa hljóðmúrinn, er látinn 97 ára að aldri. Eiginkona Yeager, Victoria Yeager, greindi frá andlátinu á Twitter.

Chuck Yeager var orrustuflugmaður í seinna stríði og skrifaði sig svo inn í sögubækurnar árið 1947, þá 24 ára að aldri, þegar hann flaug tilraunaflugvél af gerðinni Bell X-1 og rauf þá hljóðmúrinn fyrstur manna. Vélin bar nafnið Glamorous Glennis. 

Hann átti eftir að slá nokkur hraðamet til viðbótar og lagði þannig sitt á vogarskálarnar til að koma geimferðaáætlun Bandaríkjanna á laggirnar.

Með því að „rjúfa hljóðmúrinn“ fór ferðaðist Yeager hraðar en hljóðið, það er að minnsta kosti 340 metra á sekúndu eða 1.225 kílómetra á klukkustund. Hann var þá í 13.700 metra hæð. Yeager rauf síðast hljóðmúrinn árið 2012, þá 89 ára gamall.

Sagt var frá afreki Yeager í bók Tom Wolfe, The Right Stuff, sem síðar var kvikmynduð árið 1983.

Hann er mest heiðraði flugmaðurinn í sögu Bandaríkjahers og er flugvöllurinn í Charleston í Vestur-Virginíu nefndur í höfuðið á honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×