Lífið

Hug­ljúfur flutningur Jóhönnu Guð­rúnar á ó­dauð­legu jóla­lagi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Davíð Sigurgeirsson og Jóhanna Guðrún Jónsdóttir taka lagið í Hellisgerði í kvöld.
Davíð Sigurgeirsson og Jóhanna Guðrún Jónsdóttir taka lagið í Hellisgerði í kvöld. Vísir/Egill

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir söngkona flutti hið klassíska jólalag Have Yourself a Merry Little Christmas ásamt eiginmanni sínum Davíð Sigurgeirssyni í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Flutningurinn, sem finna má neðst í fréttinni, tónaði vel við jólaljósin í miðbæ Hafnarfjarðar, sem eru einkar vegleg í ár.

Fram kom í kvöldfréttum að miðbærinn hefði verið skreyttur sérstaklega þetta árið, nú þegar skemmtanir og önnur hátíðahöld eru af skornari skammti en oftast áður. Í Hellisgerði, almenningsgarði í miðbæ Hafnarfjarðar, hafði svo sannarlega verið tekið til hendinni og jólaljós prýddu nær hvert einasta tré þegar Sunna Karen Sigurþórsdóttir fréttamaður leit þar við í beinni útsendingu í kvöld.

Ljósadýrð í Hellisgerði í kvöld.Vísir/Egill

Til að auka enn frekar á jólastemninguna voru Hafnfirðingarnir Jóhanna Guðrún og Davíð fengnir til að flytja lagið Have Yourself a Merry Little Christmas, sem hin goðsagnakennda Judy Garland frumflutti í kvikmyndinni Meet Me in St. Lous árið 1944. 

Lagið hefur síðan orðið eitt vinsælasta jólalag hins vestræna heims og fjölmargir tónlistarmenn tekið það upp á sína arma. Þar má nefna Frank Sinatra, Sam Smith og jólalagakónginn Michael Bublé.

Flutning Jóhönnu Guðrúnar og Davíðs úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má horfa og hlýða á í spilaranum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.