Erlent

Íran hafnar skil­yrðum Bidens fyrir kjarnorkusamningi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Joe Biden, sem tekur við embætti Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi, hefur lýst yfir áhuga um að endurvekja kjarnorkusamninginn við Íran. 
Joe Biden, sem tekur við embætti Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi, hefur lýst yfir áhuga um að endurvekja kjarnorkusamninginn við Íran.  Getty/Mark Makela

Íran hefur hafnað skilyrðum sem ný stjórn Joe Bidens, verðandi Bandaríkjaforseta, hefur sett vegna endurupptöku kjarnorkusamnings milli ríkjanna.

Biden hefur lýst yfir vilja til að endurvekja samninginn, sem gerður var árið 2015 en Donald Trump, Bandaríkjaforseti, dró landið einhliða úr.

Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, sagði í dag að Bandaríkin þurfi sjálf að samþykkja skilyrði sem sett hafa verið á þau.

Verðandi ríkisstjórn Bidens hefur sett ákveðin skilyrði sem Íran verður að samþykkja áður en ríkin ganga að samningsborðinu. Þá hefur hann lýst því yfir að gangist Íran við ströngum skilyrðunum muni Bandaríkin lyfta viðskiptaþvingunum sem Trump lagði á ríkið eftir að hann dró Bandaríkin úr samningnum í maí 2018. Þvinganirnar beindust sérstaklega að olíuframleiðendum og fjármálastofnunum landsins.

Ætla að auka auðgun úrans verði viðskiptaþvingunum ekki aflétt

Síðan Bandaríkin drógu sig úr samningnum hefur kjarnorkuframleiðsla í Íran verið mun meiri en segir til í samningnum frá árinu 2015. Það hefur vakið upp miklar vangaveltur þess efnis hvort kjarnorkuframleiðslan sé í þeim tilgangi að framleiða kjarnavopn. Yfirvöld í Íran hafa hins vegar neitað því og segja kjarnorkustarfsemi landsins friðsamlega.

Samningurinn sem undirritaður var árið 2015 var gerður á milli Bandaríkjanna, Þýskalands, Frakklands, Bretlands, Rússlands og Kína auk  Íran. 

Í gær, miðvikudag, samþykkti íranska þingið ný lög sem munu koma í veg fyrir að eftirlitsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna geti fylgst með kjarnorkustarfsemi ríkisins. Þá segir í lögunum að auka skuli auðgun úrans upp í 20% verði viðskiptaþvingunum ekki létt á næstu tveimur mánuðum. Það er mun meira en segir til í kjarnorkusamningnum, en þar kemur skýrt fram að auðgun úrans megi ekki ná yfir 3,67 prósent.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×