Skoðun

Þekking, fræðsla og verklag innan skóla varðandi forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum

Guðrún Helga Bjarnadóttir skrifar

Dagana 19.-26. október 2020 gerðu Barnaheill netathugun innan leik- og grunnskóla landsins á þekkingu og fræðslu fyrir starfsfólk og nemendur og verklag varðandi forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum. Athugunin náði til 404 leik- og grunnskóla, en skólastjórnendum var sendur spurningalisti með sex spurningum. Alls svöruðu 189 skólar listanum eða 46,8%.

Helstu niðurstöður athugunarinnar sýna að í 61% skóla hafa kennarar, annað starfsfólk og nemendur fengið forvarnafræðslu um kynferðisofbeldi gegn börnum. 

Það er áberandi í svörum skólastjórnenda um forvarnafræðslu að flestir nefndu fræðslu frá Blátt áfram, en forvarnasamtökin Blátt áfram voru stofnuð 2004 og sameinuðust Barnaheillum 2019. Það er afar jákvætt að sjá að skólar sem fengið hafa fræðslu fyrir starfsfólk sitt hafa einnig séð mikilvægi þess að bjóða nemendum upp á forvarnafræðslu. Að auki er hér tækifæri fyrir 25% skóla sem svöruðu „Nei“ við þessum spurningum að fá forvarnafræðslu fyrir starfsfólk sitt og nemendur. 

Í spurningunni „Treysta kennarar sér til að sinna forvarnafræðslu“, svöruðu 50% játandi, 6% neitandi en 43% voru ekki viss. Það liggur fyrir að ekki er lögð áhersla á þessa fræðslu hjá t.d. Menntavísindasviði Háskóla Íslands eða í öðru kennaranámi. Hér er augljóst tækifæri fyrir skóla til að efla fræðslu um mikilvægi forvarna hjá kennurum og öðru starfsfólki. Fræðsla um forvarnir þarf að innihalda leiðbeiningar og dæmi um lausnir sem fólk á auðvelt með að tileinka sér. 

Tvær spurningar listans varða verkferla innan skólans. Spurt er hvort verkferlar séu til staðar í skólanum ef grunur um kynferðisofbeldi gegn barni kemur upp. 86% svarenda svöruðu þessari spurningu játandi. Einnig er spurt hvort kennarar séu upplýstir um verkferlana en því svöruðu 76,5% játandi. Hér er áberandi og er það vel, hve margir skólar eru með skýra verkferla er kemur að tilkynningum um kynferðisofbeldi á börnum. 

Viðbrögð skólastjórnenda við þessari netathugun sýnir hve mikilvægar forvarnir gegn kynferðisofbeldi eru í huga þeirra. Það er afar gott að sjá stóran hluta svarenda sinna forvörnum vel, en í skriflegum svörum er kallað eftir meira stuðningsefni og reglulegu samtali um forvarnir. Það er hvatning fyrir samtök eins og Barnaheill sem bjóða reglulega upp á fræðslu og samtal með einhverjum hætti að halda áfram að efla stofnanir í að fyrirbyggja ofbeldi á börnum. 

Höfundur er verkefnastjóri innlendra verkefna Barnaheilla




Skoðun

Sjá meira


×