Skoðun

Ó­læsir ærsla­belgir

Karl Gauti Hjaltason skrifar

„Rúmlega helmingur landsmanna mun vera kvenfólk, tæplega helmingur landsmanna erum við menn“

Svona sungu Stuðmenn hér um árið. Þegar þeir sungu um menn er rétt að benda á að konur eru líka menn. Karlar eru tæplega helmingur þjóðarinnar og má með ýmsum rökum segja að staða þeirra, félagsleg, andleg og menntunarleg hafi farið síversnandi mörg undanfarin ár.

Illa læsir drengir

Þriðjungur drengja sem útskrifast úr grunnskóla getur ekki lesið sér til gagns. Í neðri stigum grunnskóla er hlutfallið allt að helmingur. Hermundur Sigmundsson er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Reykjavík og við Háskólann í Þrándheimi í Noregi hefur bent á að hugsanlega sé verið að beita röngum aðferðum við lestrarkennslu. Hver svo sem skýringin er verður ekki við unað.

Af hverju stafar brottfall?

Brottfall ungra karla úr framhaldsskólum er mikið og sennilega er læsi eða skortur á læsi helsta skýringin. Tölurnar yfir nemendur í Háskóla Íslands eru sláandi en þar eru karlar einungis um 30% nemenda. Hlutfall drengja á aldrinum 10-15 ára sem nota ofvirknilyf hér á landi er 15%, samanborið við 5% í Noregi. Steininn tekur úr þegar tölur yfir vímuefnavanda, afbrot og sjálfsvíg eru skoðuð, þar eru ungir karlmenn í miklum meirihluta.

Um langt skeið hefur umræða um hið unga karlkyn verið afar neikvæð. Getur verið að sú umræða hafi áhrif á unglingspilta sem eru að vaxa úr grasi? Þeir finni til vanmáttar og upplifi skömm með kyn sitt og hvatir. Séu óvissir um hlutverk sitt og stöðu?

Taka þarf á öllum vanda

Með þessu er ekki verið að segja að vandamál kvenna séu léttvægari. Þarfir drengja eru að mörgu leiti aðrar en stúlkna. Strákar þurfa meiri útrás fyrir hreyfi- og sköpunarþörf sína og þeir þurfa að fá tækifæri til að keppast og takast á. Getur verið að stefnubreyting hafi orðið í kennsluháttum eða uppeldi almennt undanfarin ár, drengjum í óhag? Kannski þurfum við að endurskoða samfélagið þegar kemur að uppeldi og kennslu þegar kemur að báðum kynjum. Nútíma samfélag hefur ef til vill þróast um of frá grunnþörfum barnanna og sérstaklega drengja. Ef svo er þarf að endurskoða kerfið, færa það til betra horfs. Leita þarf lausna til aukinnar virkni og menntunar ungra drengja og ungra karla, það mun skila arðbærara þjóðfélagi.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×