Innlent

Segir forgangsröðun bólusetninga skringilega, elstir eigi að fara fyrst

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar telur réttast að 85 ára og eldri fái bóluefni fyrst því sá hópur sé í mestri hættu veikist hann. 
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar telur réttast að 85 ára og eldri fái bóluefni fyrst því sá hópur sé í mestri hættu veikist hann.  Vísir/Vilhelm

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar telur forgangsröðun í bólusetningu skringilega þar sem 60 ára og eldri eru í sjötta sæti forgangslista. Hann leggur til að 85 ára og eldri verði bólusettir fyrst því þeir séu í mestri hættu ef þeir veikjast. Hann telur að heilbrigðisráðherra muni líta til þessa.

Heilbrigðisráðherra hefur staðfesti á föstudag reglugerð um forgangsröðun við bólusetningu vegna kórónuveirunnar. Horft var til leiðbeininga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, en sóttvarnalæknir mun hafa sveigjanleika til að gera breytingar. 

Þeir sem fá bóluefni fyrst samkvæmt listanum eru starfsmenn á bráðamóttöku og gjörgæsludeildum. Þar á eftir fá starfsmenn á Covid-19 göngudeildum bóluefni. Einstaklingar sem eru 60 ára og eldri eru svo í sjötta sæti. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar gerir athugasemdir við þetta.

„Mér finnst þetta afskaplega skringilegt vegna þess að þeir sem eru milli 60-70 ára er með innan við tvö prósent líkur á að deyja ef þeir sýkjast, 75 ára og eldri eru með 8,5% líkur á að deyja og 85 ára og eldri eru um 28% líkur á að deyja,“ segir Kári.

Hann telur að elsti hópurinn eigi að fara fyrst í bólusetningu.

„Í stað þess að byggja ákvörðunina á tilfinningu á að skoða gögnin og láta þau leiða sig,“ segir Kári.

Kári segist ekki hafa rætt sérstaklega við sóttvarnayfirvöld um þessa skoðun sína.

„Það er ekki mitt hlutverk að segja hæstvirtum heilbrigðisráðherra fyrir verkum. Við erum með mjög góðan heilbrigðisráðherra og ég er alveg viss um að þegar hún fer að skoða þetta nánar þá hniki hún einhverju til, það væri mjög líkt henni,“ segir Kári að lokum.


Tengdar fréttir

Börnum verður ekki boðin bólusetning

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest og birt reglugerð um forgangsröðun við bólusetningu vegna kórónuveirunnar. Horft var til leiðbeininga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, en sóttvarnalæknir mun hafa sveigjanleika til að gera breytingar. Börnum verður ekki boðin bólusetning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×