Erlent

Máli Trumps í Pennsylvaínu lýst sem innihaldslausu og vísað frá

Samúel Karl Ólason skrifar
Málflutningur Donald Trumps og bandamanna hans hefur ekki hlotið hljómgrunn meðal dómara í Bandaríkjunum.
Málflutningur Donald Trumps og bandamanna hans hefur ekki hlotið hljómgrunn meðal dómara í Bandaríkjunum. AP/Patrick Semansky

Áfrýjunardómstóll í Fíladelfíu í Bandaríkjunum hefur vísað frá máli sem lögfræðingar Donald Trumps, forseta Bandaríkjanna, höfðuðu með því markmiði að breyta úrslitum forsetakosninganna í Pennsylvaínu.

Þrír dómarar, sem allir voru skipaðir af Repúblikönum og þar af einn sem skipaður var af Trump sjálfum, tóku ákvörðunina samhljóða.

Stephanos Bibas, dómarinn sem skipaður var af Trump, skrifaði í úrskurðinn að ásakanir um ósanngirni í kosningum væru alvarlegar. Það að halda því fram að kosningar hefðu verið ósanngjarnar gerðu þær ekki sjálfkrafa ósanngjarnar. Trump-liðar þyrftu að sýna fram á sannanir fyrir ásökunum sínum, sem dómarinn sagði vera óljósar, og það hefðu þeir ekki gert.

Lýsti hann málflutningnum sem innihaldslausum.

Í aðalmeðferð málsins staðhæfði Rudy Giuliani, lögmaður Trumps, að umfangsmikil kosningasvik hefðu átt sér stað í Pennsylvaínu en færði engar sönnur fyrir því fyrir dómi. Þessi umrædda lögsókn sneri að því að hallað hefði á Repúblikana á tilteknum svæðum í Pennsylvaínu þar sem kjósendum var gert kleift að laga mistök á kjörseðlum og koma í veg fyrir að þeir væru ógildir.

Dómararnir neituðu einnig að stöðva staðfestingu úrslit kosninganna í Pennsylvaínu, sem gert var á þriðjudaginn. Joe Biden vann ríkið samkvæmt opinberum tölum með rúmlega 80 þúsund atkvæðum.

Lögmenn Trumps og bandamenn hans hafa höfðað fjölda mála í sex ríkjum vegna kosninganna en þau mál hafa fengið lítinn hljómgrunn meðal dómara. Langflestum þeirra hefur verið vísað frá.

Jenna Ellis, einn lögmannanna í teymi Trumps, sagði í kjölfarið að næsta skref væri að áfrýja málinu til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Lýsti hún dómurunum þremur í Pennsylvaínu sem aðgerðasinnum. Giuliani sagði þó í kjölfarið að verið væri að skoða næstu skref.

Trump hefur sagt að hann bindi vonir við að Hæstiréttur muni grípa inn í kosningarnar, eins og gert var árið 2000. Þá úrskurðuðu dómarar að endurtalningu skyldi hætt og þar með að George W. Bush yrði forseti en ekki Al Gore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×