Aftur hélt Rúnar Alex hreinu og Arsenal er komið á­fram

Rúnar Alex að hita upp fyrir leik kvöldsins.
Rúnar Alex að hita upp fyrir leik kvöldsins. David Price/Getty Images

Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson hélt hreinu er hann byrjaði sinn annan leik fyrir enska félagið Arsenal. Vannst öruggur 3-0 útisigur á Molde frá Noregi í Evrópudeildinni í kvöld.

Rúnar Alex sá til þess að Arsenal lenti ekki 1-0 undir með frábærri viðbragðsmarkvörslu í fyrri hálfleik. Eflaust má gagnrýna leikmann Molde fyrir að nýta ekki færið betur en Rúnar Alex gerði vel í að skófla boltanum af línunni.

Var það hins vegar eina skot Molde í leiknum og segja má að Rúnar Alex hafi haft það nokkuð náðugt það sem eftir lifði leiks. Það verður þó ekki tekið af markverðinum að hann hefur nú haldið hreinu í báðum leikjum sínum fyrir Arsenal og báðir hafa þeir unnist með þremur mörkum gegn engu.

Leikur kvöldsins var þó ef til vill jafnari en lokatölur gefa til kynna. Staðan var markalaus í hálfleik en í þeim síðari stigu gestirnir frá Lundúnum á bensíngjöfina og fóru á endanum með öruggan sigur af hólmi.

Nicolas Pépé kom gestunum yfir á 50. mínútu leiksins og fimm mínútum síðar hafði Reiss Nelson tvöfaldaði forystuna. Joe Willock lagði upp bæði mörkin. Það var svo Folarin Balogun sem tryggði 3-0 sigur Arsenal með marki þremur mínútum fyrir leikslok.

Þó mennirnir sem hafi skorað mörkin séu í yngri kantinum þá stillti Mikael Arteta – þjálfari Arsenal – upp sterku liði í kvöld. Shokdran Mustafi og David Luiz voru til að mynda í miðverði liðsins. Þá var Granit Xhaka á miðjunni og Alexandre Lacazette upp á topp ásamt Edward Nketiah.

Eftir sigur kvöldsins er ljóst að Arsenal er komið áfram í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Liðið er með fullt hús stiga, hefur það skorað 12 mörk og aðeins fengið á sig tvö.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira