Innlent

Landspítali af hættustigi á óvissustig

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. Vísir/vilhelm

Landspítali hefur verið færður af hættustigi á óvissustig. Þetta er gert í ljósi batnandi stöðu á spítalanum og færri kórónuveirusmita í samfélaginu, að því er fram kemur í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala.

Í óvissustigi felst að „viðbúnaður er vegna yfirvofandi eða orðins atburðar“. Á óvissustigi fylgist farsóttanefnd náið með þróun mála en fundir viðbragðsstjórnar og farsóttanefndar falla niður nema þörf krefjist frekari samhæfingar.

Spítalinn var færður yfir á neyðarstig í fyrsta sinn í lok október eftir að hópsýking kom upp á Landakoti. Hann var svo færður af neyðarstigi á hættustig nú í nóvember.

Níu sjúklingar liggja nú inni á Landspítala með virka Covid-sýkingu. Einangrun hefur verið aflétt af 34 sjúklingum sem nú eru á spítalanum. 172 sjúklingar er í eftirliti Covid-göngudeildar og þar af 23 börn. Sjö starfsmenn Landspítala eru skráðir í einangrun og níu í sóttkví.

Þá er þess getið í tilkynningu að ekki liggi fyrir hvenær bóluefnið við Covid-19 berist til landsins en undirbúningur framkvæmdar bólusetningar innan spítalans sé þegar hafinn.


Tengdar fréttir

Aðhaldskrafa á spítalann eins og blaut tuska

Þjarmað var að Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, vegna niðurskurðarkröfu á Landspítalann í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×