Rafíþróttir

Hafið yfir allan vafa hverjir vinni: „Meira eins og Liverpool og Millwall“

Sindri Sverrisson skrifar
Sverrir Hjaltested, eða dell1, ætlar sér sigur á sunnudagskvöld með liði Hafsins.
Sverrir Hjaltested, eða dell1, ætlar sér sigur á sunnudagskvöld með liði Hafsins. Hafið

„Ég held að við eigum eftir að taka þetta lið frekar létt, eins og alltaf,“ segir Sverrir Hjaltested, leikmaður Hafsins, fyrir úrslitaleikinn við Dusty í Vodafone-deildinni í tölvuleiknum CS:GO.

Úrslitaleikurinn er á sunnudagskvöld og hefst bein útsending kl. 18 á Stöð 2 eSport.

Í Dusty eru strákarnir sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar, en þeir fóru allir frá Fylki yfir til Dusty í sumar. Sverrir og fleiri þurftu þá að víkja og eru nú í liði Hafsins, staðráðnir í að vinna úrslitaleikinn sem sérfræðingar hafa lýst sem El Clásico rafíþróttasenunnar.

„Þeir eiga kannski eftir að taka við af okkur en það er ekki komið að því, viljum við meina,“ segir Sverrir en liðsmenn Hafsins þekkja það vel að vera bestir á landinu þó þeir hafi ekki orðið meistarar síðast. Þá töpuðu þeir afar óvænt í undanúrslitum fyrir FH, sem svo tapaði fyrir núverandi leikmönnum Dusty í úrslitaleik.

„Ég held að við eigum eftir að taka þetta lið frekar létt, eins og alltaf. Þessi tvö lið hafa mæst níu sinnum held ég, og við unnið níu sinnum. El Clásico? Ég veit ekki með það. Þetta er meira eins og Liverpool og Millwall,“ segir Sverrir, kannski betur þekktur sem „dell1“, og skellihlær.

„Langbestur á landinu“

Sverrir, sem starfar sem rafvirki, leyfir sér að vera kokhraustur, kannski ekki síst vegna komu Auðuns Gissurarsonar (Auddzh) sem kom til Hafsins rétt fyrir úrslitakeppnina:

„Hann var með okkur í Dusty á sínum tíma. Við hentum honum út úr liðinu, hann fór í FH og henti okkur út úr mótinu. Hann er langbestur á landinu, sem leikstjórnandi, segir Sverrir, og bætir við að Auðunn breyti leik Hafsins mikið:

„Hann er fluggáfaður karlinn og kemur inn með mikinn aga. Hann er með skýr plön þannig að það er alveg ljóst fyrir fram hvað við ætlum að gera. Áður gerðum við bara eitthvað, en það virkaði svo sem alveg. Þetta er mun betra núna, og vænlegra til árangurs,“ segir Auðunn, og bætir við:

„Við erum búnir að æfa saman núna í tvær vikur, eins mikið og hægt er með vinnu og svona, og það er alveg nóg. Þetta verður bara snöggt, 2-0 og snemma að sofa.“

Bein útsending frá lokaúrslitum Stórmeistaramóts Vodafonedeildarinnar hefst kl. 18.00 á Stöð 2 eSport á sunnudagskvöld.


Tengdar fréttir

„Þetta er El Clásico“

Það dregur til tíðinda á sunnudagskvöldið er úrslitaleikurinn í Vodafone-deildinni í CS:GO fer fram. Þar mætast Dusty og Hafið.

Hafið tók KR

Undanúrslitaleikur Stórmeistaramóts Vodafonedeildarinnar í CS:GO fór fram í gærkvöldi. Það voru stórveldi KR og lið Hafsins sem tókust á um sæti í úrslitunum.

Dusty komnir í úrslit

Deildarmeistarar Dusty og stórveldið Þór Akureyri tókust á í undanúrslitaleik stórmeistaramóts Vodafonedeildarinnar. Voru þetta hnífjafnir leikir þar sem sigur liðið þurfti að hafa fyrir hverri einustu lotu.

Stærstu félagskipti í rafíþróttum á Íslandi

Rafíþróttaliðið Dusty hefur staðfest að liðið ætli ekki að endurnýja samninga við leikmenn sem keppt hafa fyrir það í CS:GO síðustu ár en þess í stað hefur Dusty gengið frá samningum við fjóra menn úr Íslandsmeistaraliði Fylkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×