Fótbolti

Viðar fyrsti Íslendingurinn til að skora á Parken síðan Hemmi Gunn í 14-2

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Síðustu tveir Íslendingarnir til að skora á Parken í Kaupmannahöfn, Viðar Örn Kjartansson og Hermann Gunnarsson.
Síðustu tveir Íslendingarnir til að skora á Parken í Kaupmannahöfn, Viðar Örn Kjartansson og Hermann Gunnarsson.

Viðar Örn Kjartansson varð í gær fyrsti Íslendingurinn til að skora í landsleik gegn Dönum á Parken í 53 ár, eða síðan Hermann Gunnarsson skoraði í 14-2 tapinu fræga 1967.

Viðar kom inn á sem varamaður í leik Danmerkur og Íslands í Þjóðadeildinni í gær. Hann jafnaði metin í 1-1 á 85. mínútu. Mark Selfyssingsins var nálægt því að tryggja Íslendingum fyrsta stigið á Parken síðan 1959, þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli, en Danir fengu aðra vítaspyrnu í uppbótartíma. Christian Eriksen skoraði af miklu öryggi úr vítinu og tryggði danska liðinu stigin þrjú.

Mark Viðars í gær var fyrsta mark Íslendings í landsleik gegn Dönum á Parken síðan Hemmi Gunn minnkaði muninn í 9-2 á 62. mínútu í 14-2 leiknum 23. ágúst 1967. Sex mínútum áður hafði Helgi Númason minnkað muninn í 6-1. Þetta var eitt marka Hemma Gunn fyrir landsliðið en hann lék alls 20 landsleiki.

Íslendingum mistókst að skora í næstu fjórum leikjum sínum á Parken og töpuðu þeim, 0-13 samanlagt.

Síðasti íslenski landsliðsmaðurinn sem skoraði í landsleik á danskri grundu var Arnór Ingvi Traustason í vináttulandsleik Danmerkur og Íslands í MCH Arena, heimavelli Midtjylland í Herning, 24. mars 2016. Hann minnkaði muninn í 2-1 á lokamínútunni.

Mark Viðars í gær var hans fjórða fyrir landsliðið í 28 leikjum. Hann skoraði í vináttulandsleikjum gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Katar 2016 og 2017 og svo gegn Andorra í undankeppni EM í fyrra.

Viðar verður ekki með Íslandi í leiknum gegn Englandi á Wembley á miðvikudaginn en hann er farinn aftur til félags síns, Vålerenga í Noregi.


Tengdar fréttir

Hamrén: Viðar hlustaði á mig

Svíinn kvaðst stoltur af íslenska landsliðinu þrátt fyrir tapið fyrir því danska á Parken í kvöld.

Viðar Örn: Þeir refsa ef þú gerir ein mis­tök

Markaskorari Íslands var súr eftir tapið gegn Dönum en Viðar Örn Kjartansson var á því að Ísland hefði átt allavega stig skilið úr leik kvöldsins sem tapaðist 2-1.

Hann hoppar inn í mig og þetta er aldrei víti

„Fyrir mér er þetta aldrei víti,“ segir Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í fótbolta, sem fékk dæmt á sig víti í 2-1 tapinu gegn Danmörku í Þjóðadeildinni í kvöld.

Sjáðu Viðar Örn jafna metin á Parken

Viðar Örn Kjartansson þurfti ekki langan tíma til að setja mark sitt á leik Íslands og Danmerkur á Parken. Það dugði þó ekki til að fá stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×