Fótbolti

Ari Freyr: Hann hoppar inn í mig og þetta er aldrei víti

Sindri Sverrisson skrifar
Daniel Wass og Ari Freyr Skúlason í barátunni um boltann en dæmt var víti á Ara fyrir meint brot á Wass.
Daniel Wass og Ari Freyr Skúlason í barátunni um boltann en dæmt var víti á Ara fyrir meint brot á Wass. EPA-EFE/Liselotte Sabroe

„Fyrir mér er þetta aldrei víti,“ segir Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í fótbolta, sem fékk dæmt á sig víti í 2-1 tapinu gegn Danmörku í Þjóðadeildinni í kvöld.

Danir komust yfir snemma leiks eftir að víti var dæmt á Ara að því er virtist fyrir frekar litlar sakir. Danir skoruðu svo sigurmark sitt úr öðru víti í uppbótartíma:

„Tvö víti en við getum verið mjög stoltir af þessari frammistöðu eftir svekkelsið í Ungverjalandi og að hafa skipt mörgum leikmönnum inn í liðið,“ sagði Ari við Stöð 2 Sport. Aðspurður um vítið sem hann fékk dæmt á sig sagði Ari:

„Ég veit af honum þarna svo ég reyni að teygja mig í boltann. Hann hoppar inn í mig og fyrir mér er þetta aldrei víti. Ég sparka ekki í hann, ég set löppina bara upp til að ná boltanum. Þetta er svona, því miður, og maður verður að kyngja þessu.“

Ari lék síðustu mínúturnar í 2-1 tapinu sára gegn Ungverjalandi á fimmtudag og viðurkenndi að síðustu dagar væru búnir að vera erfiðir:

„Það er hægt að segja það. Þegar maður hefur farið á stórmót og er svona nálægt þessu, þá er mjög erfitt að kyngja þessu. Lífið heldur áfram en þetta verður í huga okkar alla ævi. En við getum verið stoltir af því hvað við höfum afrekað síðustu ár og vonandi verður meira af þessu í framtíðinni.“

Íslensku strákarnir eru nú að spila sína síðustu leiki undir stjórn Eriks Hamrén og vilja að sjálfsögðu kveðja hann með góðum leik gegn Englandi á miðvikudag:

„Auðvitað. Það var líka planið í dag. En því miður var þetta svona. En við getum verið mjög stoltir af þessu, setjum hausinn upp og áfram gakk.“


Tengdar fréttir

Sjáðu Viðar Örn jafna metin á Parken

Viðar Örn Kjartansson þurfti ekki langan tíma til að setja mark sitt á leik Íslands og Danmerkur á Parken. Það dugði þó ekki til að fá stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×