Erlent

Felldu alræmdan vígamann í Malí

Samúel Karl Ólason skrifar
Franskur hermaður horfir út úr þyrlu sinni á flugi yfir Malí.
Franskur hermaður horfir út úr þyrlu sinni á flugi yfir Malí. AP/Christophe Petit Tesson

Hernaðaryfirvöld Frakklands segja að franskir hermenn hafi fellt háttsettan leiðtoga al-Qaeda í Malí. Bah ag Moussa, sem áður var ofursti í her Malí og gekk einnig undir nafinu Bamoussa Diarra, var hægri hönd Iyad Ag Ghali, leiðtoga einna stærstu hryðjuverkasamta Sahelsvæðisins.

Hópurinn hefur ítrekað gert banvænar árásir á hermenn og almenna borgara í Malí og Búrkína Fasó. Bah ag Moussa er talinn bera beina ábyrgð á mörgum slíkum árásum og var talinn stýra þjálfun nýrra vígamanna.

Samkvæmt frétt France24 var hann felldur í aðgerð á þriðjudaginn en Frakkar eru sagðir hafa fellt fjölda vígamanna í fjölmörgum aðgerðum á svæðinu á undanförnum vikum.

Vígamönnum hefur vaxið ásmegin í Sahel á undanförnum árum og hafa hryðjuverkasamtök eins og al-Qaeda og Íslamska ríkið skotið þar niður rótum.

Í þessari tilteknu aðgerð voru drónar notaðir til að bera kennsl á bíl Moussa og voru sérsveitarmenn og þyrlur sendar til móts við hann. Fimm manns voru í bílnum og eru þeir sagðir hafa hunsað skipanir um að stöðva og munu þeir hafa skotið á þyrlurnar. Við það voru þeir allir felldir.

Frakkar hafa verið með viðveru í Malí og víðar í Sahel frá 2013. Þá hjálpuðu Frakkar við að koma vígamönnum frá völdum. Frakkar eru nú með um 5.100 menn á svæðinu.

Hér má sjá sjónvarpsfrétt France24 frá síðasta mánuði þar sem fjallað var um viðveru franskra hermanna í Malí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×