Fótbolti

Enska sambandið sækir um sérstaka undanþágu fyrir íslenska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikil barátta í fyrri leik Íslands og Englands í Þjóðadeildinni. Harry Kane og Sverrir Ingi Ingason liggja í grasinu.
Mikil barátta í fyrri leik Íslands og Englands í Þjóðadeildinni. Harry Kane og Sverrir Ingi Ingason liggja í grasinu. Vísir/Hulda Margrét

Enska knattspyrnusambandið heldur ennþá vonina um að íslenska knattspyrnulandsliðið fá sérstakt leyfi frá enskum sóttvarnaryfirvöldum til að koma Englands frá Danmörku.

Breska ríkisútvarpið segir frá því að enska knattspyrnusambandið hafi sótt um undanþágu fyrir íslenska landsliðið.

Þar kemur fram að Knattspyrnusamband Íslands hafi samþykkt að fylgja mjög ströngum reglum.

Íslenski hópurinn verður í UEFA búbblu allan tímann sinn í Danmörku og þar þurrfa allir að fara í kórónuveirupróf.

„Við höfum samið um það við íslenska liðið að þeir komi hingað í einkaflugvél og fari í gengum einkaflugstöð. Þeir munu síðan aðeins hafa aðgengi að hóteli sínu og leikvanginum,“ sagði talsmaður enska sambandsins við breska ríkisútvarpið.

Ensk sóttvarnaryfirvöld hafa lokað landinu fyrir ferðalögum frá Danmörku eftir að kórónuveiran stökkbreyttist í minkabúum Danmerkur.

Það fylgir sögunni að lið Íslands og Englands gætu mæst í Þýskalandi verði þessari beiðni enska knattspyrnusambandsins hafnað.

Ísland spilar við Ungverjaland í kvöld og mætir svo Danmörku í Kaupmannahöfn á sunnudagskvöldið. Þaðan á liðið síðan að ferðast til Englands og spila við heimamenn á Wembley næstkomandi miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×