Erlent

Utanríkisráðherrann vill ekki viðurkenna sigur Biden

Kjartan Kjartansson skrifar
Pompeo ræddi við fréttamenn í utanríkisráðuneytinu í dag. Hann sagði þar að ný ríkisstjórn Trump tæki við í janúar þrátt fyrir að Joe Biden hefði unnið sigur í forsetakosningunum.
Pompeo ræddi við fréttamenn í utanríkisráðuneytinu í dag. Hann sagði þar að ný ríkisstjórn Trump tæki við í janúar þrátt fyrir að Joe Biden hefði unnið sigur í forsetakosningunum. AP/Jacquelyn Martin

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, bættist í hóp áhrifamanna innan Repúblikanaflokksins sem neitar að viðurkenna sigur Joe Biden í forsetakosningunum í síðustu viku. Hann sagði fréttamönnum í dag að valdaskipti til „nýrrar Trump-stjórnar“ ættu eftir að ganga hnökralaust fyrir sig.

Biden var lýstur sigurvegari í forsetakosningunum í fjölmiðlum á laugardag eftir að ljóst var að hann hefði unnið meirihluta kjörmanna í lykilríkjunum Pennsylvaníu og Nevada. Talning stendur enn yfir í nokkrum ríkjum og verða úrslit kosninganna ekki staðfest formlega strax.

Trump forseti hefur neitað að viðurkenna úrslit kosninganna. Þess í stað heldur hann fram stoðlausum ásökunum um stórfelld kosningasvik sem hafi kostað hann öruggan sigur. Ýmsir leiðandi repúblikanar hafa tekið undir þær ásakanir og neitað að viðurkenna ósigur í forsetakosningunum síðustu daga. Halda þeir því fram að kosningunum sé ekki lokið því Trump eigi enn eftir að láta reyna á úrslitin fyrir dómstólum.

Engar vísbendingar eða sannanir hafa komið fram um stórfelld kosningasvik og nokkrum dómsmálum framboðs Trump hefur þegar verið vísað frá.

Pompeo var spurður út hvort að tafir á að teymi Biden gæti hafist handa við undirbúning fyrir valdaskipti gætu haft skaðleg áhrif á þjóðaröryggi á fréttamannafundi í dag.

„Það verða hnökralaus valdaskipti til nýrrar Trump-ríkisstjórnar,“ sagði utanríkisráðherrann þrátt fyrir að Trump hafi beðið ósigur í forsetakosningunum.

Endurómaði Pompeo fullyrðingar Trump að aðeins mætti telja „lögleg atkvæði“. Benti hann á að árið 2000 hafi það tekið meira en 37 daga að fá niðurstöðu um endanlegan sigurvegara kosninganna. Þá munaði aftur á móti aðeins nokkur hundruð atkvæðum á George W. Bush, frambjóðanda repúblikana, og Al Gore, frambjóðanda demókrata, í Flórída. Í kosningunum nú er munurinn á Trump og Biden að líkindum hundruð þúsundir atkvæða í nokkrum ríkjum.

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur í gegnum tíðina lagt áherslu á lýðræði á erlendri grundu og hvatt ráðamenn annars staðar til þess að viðurkenna úrslit lýðræðislega kosninga. Pompeo brást ergilega við spurningu um hvort að viðbrögð Trump-stjórnarinnar við ósigrinum græfi undan málflutningi ráðuneytisins erlendis.

„Það er fáránleg spurning og þú ert fáránlegur fyrir að spyrja hennar,“ sagði ráðherrann byrstur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×