Erlent

Hertar að­gerðir í Dan­mörku vegna minka­smitsins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur kynnir hertar aðgerðir.
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur kynnir hertar aðgerðir. EPA-EFE/Philip Davali

Sóttvarnaaðgerðir hafa verið hertar verulega á Norður-Jótlandi í Danmörku vegna stökkbreytingar á kórónuveirunni sem fannst í minkum og menn hafa smitast af. Aðgerðirnar ná til sjö sveitarfélaga: Hjørring, Frederikshavn, Vesthimmerland, Brønderslev, Jammerbugt, Thisted og Læsø.

Samkvæmt Statens Serum Institut er stökkbreytta afbrigðið ólíklegra til þess að vera móttækilegt fyrir bóluefnum og telur stofnunin of mikla hættu fólgna í því ef afbrigðið dreifir úr sér.

Öllum minkum í Danmörku verður fargað vegna sýkingarinnar.

Íbúar í sveitarfélögunum sjö hafa fengið þau fyrirmæli að ferðast ekki út fyrir sveitarfélagsmörkin og sömuleiðis hefur Dönum sem búa utan þeirra verið gert að ferðast ekki til svæðanna. Reglurnar taka gildi í kvöld.

Allir veitingastaðir, kaffihús og barir þurfa að loka, að undanskildum þeim veitingastöðum sem bjóða upp á að matur sé tekinn heim.

Leikhúsum, söfnum, bíósölum, bókasöfnum og flestum skólum verður lokað. Börn í fimmta til áttunda bekk munu vera í fjarkennslu og sömuleiðis framhalds- og háskólanemar. Þá verður öllum líkamsræktarstöðvum, leikvöllum, sundlaugum og öðrum almenningssölum lokað. Þetta á þó aðeins við aðstöðu innanhúss.

Einnig hætta allar almenningssamgöngur að ganga frá svæðunum, að undanskildum skólabílum.

Vinnustaðir hafa verið hvattir til að láta starfsfólk vinna heima, að undanskildum framlínustarfsmönnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×