Fótbolti

Vika sem fær mögulega heilan kafla í ævisögu Alberts

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Gudmundsson fagnar einu marka sinna sem liðsfélaga sínum Owen Wijndal í leik AZ Alkmaar og RKC Waalwijk um helgina.
Albert Gudmundsson fagnar einu marka sinna sem liðsfélaga sínum Owen Wijndal í leik AZ Alkmaar og RKC Waalwijk um helgina. Getty/ANP/JAN DEN BREEJEN

Vikan 25. október til 1. nóvember 2020 er örugglega vika sem íslenski landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson gleymir ekki í bráð.

Albert Guðmundsson hafði ekki verið í byrjunarliði AZ Alkmaar í mánuð þegar kom að leik AZ Alkmaar um þar síðustu helgi. Nú rétt rúmri viku síðar en hann heldur búinn að sýna mátt sinn og megin.

Albert skoraði tvívegis í 3-0 sigri AZ Alkmaar á RKC Waalwijk í hollensku deildinni í gær en þetta var fyrsti sigur AZ í deildinni eftir fimm jafntefli í fyrstu fimm leikjunum.

Albert skoraði þar með tvennu annan leikinn í röð því hann var líka með tvö mörk á móti króatíska liðinu HNK Rijeka í Evrópudeildinni í vikunni.

Vikan hófst síðan með marki í 2-2 jafntefli á móti Den Haag í hollensku deildinni á sunnudaginn fyrir viku.

Albert skoraði því fimm mörk á einni viku eftir að hafa skorað samtals tvö mörk á fyrstu tveimur mánuðum tímabilsins. Hann hefur nú skorað 7 mörk í 8 leikjum í öllum keppnum á leiktíðinni. Það er ekkert skrýtið að Twitter-síða AZ Alkmaar tali um að hann sé brennandi heitur.

Albert kom inn í byrjunarliðið á móti Den Haag eftir að hafa fengið aðeins tvær mínútur í Evrópudeildarleik á móti Napoli þremur dögum fyrr. Viku áður hafði Albert verið ónotaður varamaður í deildarleik á móti VVV-Venlo.

Albert var í rauninni kominn á eftir hinum nítján ára Myron Boadu í goggunarröðinni þegar Boadu fékk kórónuveiruna. Hann missti af þremur leikjum en kom inn á sem varamaður um helgina.

Albert greip hins vegar tækifærið þegar það gafst og það hjálpaði örugglega sjálfstraustinu hans að hafa spilað vel á móti Belgíu á Laugardalsvellinum í lokaleiknum í síðasta landsleikjaglugga. Albert skoraði reyndar ekki mark í Laugardalnum en stóð sig vel.

Albert hefur skorað sjö mörk á leiktíðinni á 509 mínútum sem þýðir að hann hefur skorað mark á 73 mínútna fresti sem er frábær tölfræði.

Íslenskt knattspyrnuáhugafólk hefur svolítið beðið eftir því að Albert springi út og vonandi hefur hann unnið sér inn reynslu og andlegan styrk til að byggja ofan á þessa viku og bæta við.

Næst á dagskrá er Evrópudeildarleikur á móti Real Sociedad í Baskalöndum á fimmtudaginn kemur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×