Skoðun

Gagnrýni og heilbrigðisþjónusta

Sigrún Huld Þorgrímsdóttir skrifar

Ég finn mig knúna til að bregðast við þegar ég sé virtan kollega minn í ábyrgðarstöðu lýsa því yfir að það sé „voða auðvelt“ að gagnrýna heilbrigðisþjónustuna, þar talar hún sérstaklega um atburðina á Landakoti.

Vera má að það sé auðvelt fyrir suma, og þá sennilega þá sem fjarri standa þjónustunni og þekkja lítið til hennar.

En fyrir notendur þjónustunnar er það sannarlega erfitt og kvíðvænlegt spor. Séu þeir í ofanálag tengdir þjónustunni sem starfsmenn er það enn erfiðara.

Þegar dóttir mín ákvað að koma í viðtal og gagnrýna viðbrögð Landakots við Covid sýkingunni leið henni sannarlega ekki vel. Hún átti í baráttu við sjálfa sig og var andvaka af kvíða.

En þá var staða hennar sú að hún hafði ekki hugmynd um hvort hún og tvö systkini hennar væru smituð ásamt tíu börnum þeirra þar af tveimur sem eru sérlega viðkvæm vegna fötlunar.

Enginn frá Landakoti hafði haft samband í tvo sólarhringa (og þegar samband var haft voru þau skilaboð þveröfug við það sem smitrakningarteymi sóttvarnalæknis sagði deginum síðar).

Flutningur föður hennar til Stykkishólms var óskiljanlegur - og er enn þótt stjórnendur hafi komið með skýringar á því eftir að málið fór í fjölmiðla þá finnst okkur þær ekki alveg sannfærandi.En á þessum tíma virtist heldur ekki von um skýringar yfirleitt.

Upplýsingagjöf varðandi föður hennar hafði þá um nokkurt skeið verið með þeim hætti að traust hennar (en hún var sú sem stóð mest í samskiptunum) til starfseiningarinnar var hreint út sagt ekki mikið.

Er það hennar sök?

Ætti hún af einhverjum annarlegum ástæðum að óska eftir að faðir hennar liggi á deild þar sem þjónustan er ekki fullnægjandi?

Hvaða afstöðu hefur Landspítali til notenda þjónustu hans? Bara að þeir þegi og þakki?!

Svo það sé sagt var margt vel gert líka á Landakoti. Þessi einstaklingur átti hins vegar aldrei að fara þangað, því hann var með nýlega helftarlömun og alvarlega fötlun eftir heilablóðfall. Hann fékk hins vegar ekki að fara á Grensásdeild þar sem aðal sérþekkingin er - og vitið þið hvers vegna? Jú, hann er fæddur 1949. Hefði hann bara verið fæddur 1954 þá hefði hann farið á Grensásdeild.

Honum var sagt að Landakot væri albesti staðurinn fyrir hann. Hann varð því að vonum hissa þegar þangað kom. Hann sagði við mig (sem er fv. eiginkona hans): „Hér eru allir miklu eldri en ég og þeir labba allir af stað með göngugrindur! Hér er enginn nema ég sem er lamaður öðrum megin, enginn sem er bundinn við hjólastól.“

Förum (um leið og hægt er fyrir covid 19) að horfa í alvöru á þessa mismunun einstaklinga til heilbrigðisþjónustu vegna aldurs. Förum í alvöru að hætta henni.

Það er mikilvægara en að taka gagnrýni sem einhverju pirrandi sem notendur og/eða aðstandendur þeirra komi með nánast að gamin sínu.

Það bað enginn heilbrigðisstarfsmenn um að gera þetta að lífsstarfi sínu. Þeir völdu það sjálfir - ég og aðrir.

En dóttir mín valdi ekki að vera miður sín af áhyggjum vikum og mánuðum saman vegna þess að alvarlega fatlaður faðir hennar var ekki á rétta staðnum og að stöðugt þurfti að vera á vaktinni til að sjá um að hann virkilega fengi þjónustu og endurhæfingu eins og hann þurfti.

Faðir hennar valdi ekki að fá heilablæðingu og missa máttinn í helmingi líkamans. Hann var nýkominn í góða íbúð, búinn að fá góða vinnuaðstöðu sem myndlistarmaður og allt brosti við honum. Hann var á 71. aldursári þegar áfallið dundi yfir, hann var virkur, með stórfjölskylduna allt í kring og naut lífsins.

Hann hefði valið allt annað.

Höfundur er sérfræðingur í öldrunarhjúkrun.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×