Erlent

Frederik­sen boðar til blaða­manna­fundar eftir annan met­dag

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til blaðamannafundar síðdegis í dag.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til blaðamannafundar síðdegis í dag. EPA

Alls greindust 859 manns með kórónuveirusmit í Danmörku í gær. Er um mesta fjölda skráðra smita á einum degi frá upphafi faraldursins. Þetta er annar dagurinn í röð þar sem greinist metfjöldi, en á miðvikudaginn greindust 760 manns sem þá var met.

Danskir fjölmiðlar segja að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hafi boðað til blaðamannafundar klukkan 16:30 að íslenskum tíma þar sem kynntar verða frekari samkomutakmarkanir vegna útbreiðslunnar. Með henni verður heilbrigðisráðherrann Magnus Heunicke.

DR segir frá því að rétt sé að hafa í huga, þegar fjöldi nýsmitaðra nú sé borinn saman við fjöldann í fyrstu bylgju faraldursins, að nú séu umtalsvert fleiri sýni tekin og því greinist líklega fleiri.

Alls eru 125 manns nú á sjúkrahúsi í Danmörku vegna Covid-19, einum fleiri en í gær. Eru átján manns á gjörgæslu og þar af þrettán í öndunarvél. Þá segir að dauðsföllum sem rakin eru til sjúkdómsins hafi fjölgað um þrjú milli daga.

Í heildina eru skráð dauðsföll vegna Covid-19 í Danmörku nú 697. Skráð smit eru nú um 38.600.


Tengdar fréttir

Dönsk yfirvöld mæla gegn ferðalögum til nær allra landa

Aðeins Noregur, Grikklandi og fimm héruð í Svíþjóð eru undanskilin ráðleggingum danskra yfirvalda um að fólk ferðist ekki þangað að nauðsynjalausu vegna kórónuveirufaraldursins eftir að listi yfir slík ríki var uppfærður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×