Erlent

Tók sál­fræðing í gíslingu í flótta­til­rauninni

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi í Albertslund í morgun.
Frá vettvangi í Albertslund í morgun. AP

Danski uppfinningamaðurinn og morðinginn Peter Madsen á að hafa tekið starfsmann Herstedvester-fangelsins – kvenkyns sálfræðing – í gíslingu er hann reyndi að flýja úr fangelsinu í morgun.

Ekstra Bladet segir frá því að að Madsen eigi að hafa hótað fangavörðum með einhverju sem líktist byssu og eiga þeir þá að hafa opnað hliðin. Hafi þeir talið líf sálfræðingsins vera í hættu.

Upplýsingarnar hafa ekki fengist staðfestar af lögreglu, sem mun halda blaðamannafund  um flóttatilraunina klukkan 13:30 að íslenskum tíma.

Lögregla var með mikinn viðbúnað í Albertslund í morgun.AP

Fréttir bárust af því í morgun að Madsen, sem afplánar nú lífstíðardóm vegna morðsins á sænsku blaðakonunni Kim Wall árið 2017, hafi flúið úr fangelsinu. Hann var handtekinn af lögreglu í Albertslund, nokkuð frá fangelsinu sem er að finna í úthverfi Kaupmannahafnar.

Danskir fjölmiðlar segja ennfremur frá því að Madsen hafi hótað að sprengja sig í loft upp þegar hann flúði úr fangelsinu.

Á myndum sem birtust í dönskum fjölmiðlum mátti sjá Madsen þar sem hann sat í grasi í vegarkanti og lögreglumenn miða byssum sínum að honum.

Madsen var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2018 fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall . Madsen hafði boðið Wall um borð í heimasmíðaðan kafbát sinn og í siglingu að kvöldi 10. ágúst 2017. Hún skilaði sér hins vegar ekki í land og hófst þá mikil leit í Køge-flóa. Líkamspartar Wall fundust svo á hafsbotni eftir umfangsmikla leit.


Tengdar fréttir

Peter Madsen reyndi að flýja úr fangelsi

Danski morðinginn Peter Madsen reyndi að flýja úr fangelsi í morgun. Ekstra bladet greinir frá þessu í morgun og birtir myndir af Madsen þar sem situr í grasi í vegarkanti í Albertslund, um 400 til 500 metrum frá fangelsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×