Erlent

Tölu­vert fleiri fylgdust með Biden en Trump

Sylvía Hall skrifar
Aðrar kappræður frambjóðendananna áttu að fara fram í gærnótt en hætt var við þær eftir að Trump greindist með Covid-19.
Aðrar kappræður frambjóðendananna áttu að fara fram í gærnótt en hætt var við þær eftir að Trump greindist með Covid-19. Getty

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Joe Biden, mótframbjóðandi hans, svöruðu spurningum kjósenda í sjónvarpssal í gærnótt í stað þess að mætast í kappræðum eins og upprunalega stóð til. Frambjóðendurnir voru á sitthvorri stöðinni á sama tíma en hér má lesa umfjöllun Vísis um kosningafundina.

Aðrar kappræður frambjóðendananna áttu að fara fram í gærnótt en hætt var við þær eftir að Trump greindist með Covid-19. Var lagt til að þær færu fram í gegnum netið en Trump neitaði því.

New York Times greinir frá því að rúmlega 15 milljónir horfðu á Biden á meðan 13,5 milljónir áhorfenda fylgdust með Trump samkvæmt gögnum frá fyrirtækinu Nielsen. Má ætla að það komi illa við forsetann, sem hefur löngum hreykt sér af áhorfendatölum og vinsældum sínum í sjónvarpi.

Áhorfsmunurinn þykir enn áhugaverðari í ljósi þess að viðtal Trump var sýnt á þremur sjónvarpsstöðvum, en það var á vegum NBC. Það var einnig sýnt samtímis á MSNBC og CNBV á meðan viðtal Biden var aðeins sýnt á ABC.

Samkvæmt áhorfstölunum fjölgaði áhorfendum á viðtal Biden statt og stöðugt og fór áhorfendafjöldinn upp í 16,7 milljónir að meðaltali síðasta hálftímann eftir að viðtalinu við Trump lauk. Þó hafi það ekki haft áhrif á meðaláhorf og hefði áhorfendafjöldi Biden verið meiri þrátt fyrir þennan auka hálftíma.

Forsvarsmenn NBC voru harðlega gagnrýndir vestanhafs fyrir að skipuleggja þeirra fund á sama tíma og fundur Biden fer fram. Með því væru þau ekki að gera kjósendum greiða og greindi CNN frá því að starfsmenn NBC News væru verulega ósáttir við ákvörðun stöðvarinnar.

Í færslu á Twitter-síðu sinni sagðist forsetinn hafa fengið góð viðbrögð við viðtalinu og þakkaði stuðningsmönnum sínum.


Tengdar fréttir

Biden og Trump keppa um áhorf

Þeir Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Joe Biden, mótframbjóðandi hans, munu keppa um áhorfendur í nótt, í stað þess að mætast í kappræðum eins og upprunalega stóð til. Báðir munu þeir svara spurningum kjósenda á sitthvorri sjónvarpsstöðinni og á sama tíma.

Trump duglegri við að segja ósatt, eins og áður

Þeir Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Joe Biden, forsetaframbjóðandi, mættust ekki í kappræðum í gær eins og til stóð. Þrátt fyrir það voru þeir þó báðir að svara spurningum í sjónvarpi á sama tíma en á mismunandi sjónvarpsstöðvum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×