Erlent

Harris hættir við kosningafundi vegna kórónuveirusmits

Kjartan Kjartansson skrifar
Harris situr í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings sem fjallar nú um hæstaréttardómaraefni Trump forseta. Hún og fleiri þingmanna hafa tekið þátt í nefndarstarfinu með fjarfundarbúnaði vegna faraldursins.
Harris situr í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings sem fjallar nú um hæstaréttardómaraefni Trump forseta. Hún og fleiri þingmanna hafa tekið þátt í nefndarstarfinu með fjarfundarbúnaði vegna faraldursins. Vísir/EPA

Kamala Harris, varaforsetaefni Demókrataflokksins, aflýsti kosningaviðburðum fram yfir helgi í varúðarskyni eftir að einn nánasti ráðgjafi hennar greindist smitaður af kórónuveirunni. Sjálf greindist Harris ekki smituð í gær en hún fer í aðra sýnatöku í dag.

Innan við þrjár vikur eru nú til forseta- og þingkosninga í Bandaríkjunum og var dagskrá Harris þétt næstu dagana. Hún átti að koma fram í Norður-Karólínu þar sem litlu munar í skoðanakönnunum á fylgi Donalds Trump forseta og Joe Biden, frambjóðanda demórkrata, í dag.

Framboð Biden tilkynnti í dag að öll ferðaáform Harris hefðu verið slegin út af borðinu til og með sunnudeginum vegna þess að Liz Allen, samskiptastjóri hennar, greindist smituð af veirunni í gær. Auk Allen greindist flugliði sem flaug með Harris á kosningafund í Arizona í síðustu viku smitaður, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Harris er ekki sögð hafa verið nálægt þeim smituðu síðustu tvo dagana fyrir greininguna. Hún hafi verið með grímu í flugvélinni og bæði Allen og flugliðinni greindust neikvæð fyrir veirunni fyrir og eftir flugferðina.

Kórónuveirufaraldurinn hefur sett sterkan svip á kosningabaráttuna í ár enda eru nú á þriðja hundrað þúsund manns látnir vegna hans í Bandaríkjunum. Trump forseti greindist sjálfur smitaður af veirunni fyrr í þessum mánuði.


Tengdar fréttir

Trump endurræsir vélarnar á faraldsfæti

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stefnir að því að endurræsa framboð sitt til endurkjörs á komandi dögum. Frestur forsetans til að ná tökum á kosningabaráttunni við Joe Biden, sem hefur vaxið ásmegin í könnunum, er að renna út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×