Tíska og hönnun

Kalda töskur, Genki snjallhringurinn og stafrænt strokhljóðfæri á meðal styrkþega

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Árið 2020 hefur ekki verið hægt að halda viðburði í tengslum við úthlutanir Hönnunarsjóðs en að þessu sinni var leitað til Lóu Hjálmtýsdóttur, myndlýsi og listakonu, sem teiknaði úthlutun og styrkþega ásamt Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ráðherra.
Árið 2020 hefur ekki verið hægt að halda viðburði í tengslum við úthlutanir Hönnunarsjóðs en að þessu sinni var leitað til Lóu Hjálmtýsdóttur, myndlýsi og listakonu, sem teiknaði úthlutun og styrkþega ásamt Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ráðherra. Lóa Hjálmtýsdóttir

Hönnunarsjóður úthlutaði í dag 18 styrkjum til ólíkra verkefna á vegum hönnunar og arkitektúrs. Að þessu sinni voru 17 milljónum úthlutað en alls bárust 122 umsóknir um 230 milljónir samkvæmt tilkynningu frá Hönnunarmiðstöð Íslands.

Sjálfbærni, endurnýting, stafrænar lausnir, nýsköpun og þróun eru rauður þráður meðal verkefna styrkþega að þessu sinni. Hæsta styrkinn í þessari úthlutun hlutu Flétta hönnunarstofa og Kristín Sigurðardóttir hönnuður fyrir Íslenska glerið, möguleikar á endurvinnslu steinullar í nýtt hráefni. Verkefnið hlaut 2 milljónir króna í rannsóknar- og þróunarstyrk.

Sjóðurinn hefur ekki veitt ferðastyrki síðan í febrúar en að þessu sinni var ákveðið að veita þrjá ferðastyrki sem eiga það sameiginlegt að vera fyrir ferðalög sem eru ekki bundin ákveðnum tíma eða ferðalög á árinu 2021.

„Breiður hópur á sviði hönnunar og arkitektúrs, einstaklinga og fyrirtækja sækir um styrki fyrir mjög fjölbreytileg verkefni í Hönnunarsjóð. Hlutverk sjóðsins er þess vegna umfangsmikið og áskorun fyrir stjórn sjóðsins að vinna úr þeim fjölda umsóknar sem borist hafa í ár, en þær hafa aldrei verið fleiri. Umsóknirnar endurspegla vaxandi þörf fyrir fjárfestingu í hönnunardrifnum og notendavænum verkefnum. Hönnunardrifin nýsköpun er mikilvæg í þróun atvinnulífs framtíðar þar sem áhersla er lögð á jafnvægi milli, verðmætasköpunar, mannlífs og umhverfis,“ segir Birna Bragadóttir, formaður Hönnunarsjóðs.

Björn Steinar Blumenstein á HönnunarMars í ár.Vísir/Stöð2

Lista yfir styrkþega Hönnunarsjóðs í október 2020 má finna hér fyrir neðan. 

Rannsóknar- og þróunarstyrkir

Íslenska glerið, Flétta og Kristín Sigurðardóttir hlutu 2,000,000 kr. 

Möguleikar á endurvinnslu steinullar í nýtt hráefni eru rannsakaðir í þessu samstarfsverkefni Fléttu og Kristínar Sigurðardóttur. Verkefnið byggir á útskriftarverkefni Kristínar frá LHÍ 2016, þar sem henni tókst að umbreyta steinull á þann veg að hún minnir einna helst á hrafntinnu.

Hönnun á túrvörulínu, Innundir ehf. hlaut 1,500,000kr. 

Umhverfisvæn túrvörulína sem byggir á textílrannsókn sem fyrirtækið vinnur að.

Þróun textíls úr íslenskum hampi, Sigrún Halla Unnarsdóttir hlaut 1,250,000 kr. 

Það er stutt síðan að ræktun iðnaðarhamps hófst á Íslandi. Nú þegar hefur komið í ljós að hann hentar vel til ræktunar hérlendis sem skapar ótalmarga möguleika til vinnslu á afurðum eins og byggingarefni, pappír, plast, eldsneyti, matvæli og síðast en ekki síst textíl.

Skapandi gámahverfi í Gufunesi, Björn Loki Björnsson hlaut 1,000,000 kr. 

Verkefnið snýst um að stofna skapandi gámasamfélag að erlendri fyrirmynd. Samfélagið er sjálfstæð hugsjónadrifin rannsóknarstofa þar sem frumkvæði fær að blómstra í kraftmiklu andrúmslofti. Áhersla er lögð á þverfaglegt samstarf milli hönnuða og annarra faghópa um endurnýtingu og samfélagslegar áherslur.

Steinefnarannsóknir, Raphaël Costes hlaut 1.000.000 kr. 

Rannsóknir á möguleikum á að vinna keramikefni á Íslandi og frá Íslandi. Unnið verður að því að rannsaka glerjun með steinefnum sem finnast á Íslandi og tilraunir með fjölbreytta samsetningu dufts úr basaltleir.

BEYGJA, Fanny Sissoko hlaut 950,000 kr. 

Beygja er borðspil sem hjálpar fólki að læra íslensku. Í spilinu er málfræði æfð á skemmtilegan hátt þar sem óhætt er að prófa sig áfram, gera mistök og reyna aftur. Spilið setur málfræðireglur fram með sjónrænum hætti og notar leikreglur sem fela í sér ólíkar aðferðir til að læra.

Verkefnastyrkir

Othar - stafræn strokhljóðfæri, Hans Johannsson hlaut 1,500,000 kr. 

OTHAR er heiti á röð rafhljóðfæra, bæði stroknum og plokkuðum, sem nýta stafræna földun til að líkja eftir raunverulegum hljóðfærum í hæsta gæðaflokki. Fyrstu frumgerðir eru þegar í notkun. Tónlistarfólk sem er að prófa hljóðfærin eru m.a. Hildur Guðnadóttir, Skúli Sverrisson og Borgar Magnason.

Sería tvö - Subterranean Formation, Theodóra Alfreðsdóttir hlaut 1,000,000 kr. 

Í verkefninu, sem er samstarf milli hönnuðana Daniel Durnin og Theodóru Alfreðsdóttur, eru keramikmunir búnir til og brenndir í jörðu með nýrri aðferð þar sem jarðvegurinn fær að ráða útliti þeirra í stað þess að útkoma og útlit séu fyrirfram ákvörðuð af hönnuði/handverksmanni.

Snjallhringur í daglegu lífi, Jón Helgi Hólmgeirsson/Genki Instruments hlaut 1,000,000 kr. 

Í tækni og hönnun tónlistarhringsins Wave felast tækifæri á almennum neytendamarkaði eða miklu víðar en einungis í tónlist. Með þessu verkefni tekur Genki stórt skref í átt að þeirri þróun.

Plastplan Re:maker, Plastplan ehf /Björn Steinar Blumenstein og Brynjólfur Stefánsson hlaut 1,000,000 kr. 

Plastplan: Plastplan hefur þróað Plastplan Re:maker, stærsta iðnaðar þrívíddarprentara sem til er á markaði og hyggst þróa hönnun hans til framleiðslu og sölu. Sérstaða prentarans er að hann getur prentað stóra nytjahluti úr endurunnu plasti og verður stærsti prentarinn á markaðnum.

SUNDFORM, Unnar Ari Baldvinsson hlaut 1,000,000 kr.

Sundlaugar eru almenningsgarðar Íslendinga,frá landnámsöld til nútíðar. Formin í kringum sundbrautina og pottana, leiðin úr klefanum í pottinn, gufur og kaldir pottar. Hvernig er þessu raðað upp og hvað er það sem gerir góða laug góða? Stórt verkefni sem fjallar myndrænt um sundlaugar á Íslandi.



Markaðs- og útflutningsstyrkir

Kalda töskur, Katrín Alda Rafnsdóttir hlaut 1,500,000 kr. 

Skómerkið Kalda stækkar vöruúrval sitt og bætir við töskulínu. Töskurnar munu samsvara fagurfræðilegum og umhverfisvænum gildum Kalda þar sem áhersla er lögð á hágæða leðurvörur úr aukaafurðum.

MAT – Sjálfbær þróun kaupmannsins á horninu, M Studio Reykjavík hlaut 1,000,000 kr. 

MAT er heildstætt dreifikerfi fyrir matvæli sem er hannað í þeim tilgangi að lágmarka óþarfa dreifingu matvæla, bæta lífsgæði fólks og minnka sóun á matvælum. Með öflugri markaðs og kynningarherferð innan fyrirtækja er markmiðið að koma upp 25 MAT dreifistöðvum á höfuðborgarsvæðinu árið 2021.

Alin fæðingarstangir AGUSTAV voru sýndar á HönnunarMars.AGUSTAV

Markaðssetning Alin í Danmörku, Agustav hlaut 500,000 kr. 

Alin er mælieining í fæðingarlengd með áletruðu nafni, þyngd, dagsetningu og tíma sem einstaklingur kom í heiminn. Alin er einstök leið til að varðveita fyrstu augnablikin í nýju lífi. Alin hefur ratað inná mörg íslensk heimili en er vara á alheimstungumáli og á erindi inn á fleiri markaði.

Afrakstur og kynning á íslenskri útgáfu Das Detail in der Typografie, Gunnar Vilhjálmsson hlaut 500,000 kr.

Miðlun og kynning á þýðingu verksins Das Detail in der Typografie eftir svissneska hönnuðinn Jost Hochuli. Afrakstur starfsins getur orðið mikilvægt framlag til þekkingar á fagsviði grafískrar hönnunar á Íslandi og honum er komið á framfæri við fagsamfélag og almenning með gerð prentefnis, miðlun.



Ferðastyrkir (upphæð 100.000 kr.)

Húsnæðiskostur og hýbýlaauður, Hildur Gunnarsdóttir 

Markmið ferðar umsækjanda til Kaupmannahafnar er að fylgja eftir rannsóknarvinnu um almennar íbúðir í Kaupmannahöfn og Reykjavík með viðtölum við íbúa í báðum borgum. Umsækjandi er hluti af hópi sem fékk úthlutað styrk frá Hönnunarsjóði í átaksverkefni stjórnvalda vegna Covid 19 sem ber sama heiti. Ferðin er ótímabundin.

Interspecies futures sýning í Centre for Book Arts í New York, Thomas Pausz.

Þátttaka í sýningunni Interspecies Futures sem opnar í apríl 2021 í New York með bókinni Non Flowers for a Hoverfly sem hlaut meðal annars styrk frá Hönnunarsjóði.

Feneyjar Biennall í arkitektúr 2021, Sigrún Sumarliðadóttir 

Markmiðið ferðarinnar er að safna efni í greinarskrif um Feneyjar Biennale í arkitektúr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.