Fótbolti

Sjáðu umdeilda vítadóminn, brottrekstur Maguires og magnaða vörslu Schmeichels

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kasper Schmeichel ver skalla Masons Mount í leik Englands og Danmerkur í Þjóðadeildinni í gær.
Kasper Schmeichel ver skalla Masons Mount í leik Englands og Danmerkur í Þjóðadeildinni í gær. getty/Nick Potts

Danir gerðu góða ferð á Wembley í gær og unnu 0-1 sigur á Englendingum í riðli 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Liðin eru með Íslendingum í riðli.

Simon Kjær og Christian Eriksen léku sinn hundraðasta landsleik í gær. Sá síðarnefndi skoraði sigurmark Dana í þessum tímamótaleik. Það kom úr vítaspyrnu á 35. mínútu.

Vítaspyrnudómurinn var afar umdeildur enda virtist Kyle Walker, sá brotlegi, ekki gera mikið af sér. Spánverjinn Jesús Gil Manzano benti samt sem áður á punktinn.

Fjórum mínútum áður en Eriksen skoraði sigurmark Danmerkur fékk Harry Maguire, varnarmaður Englands, sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brot á Kasper Dolberg. Maguire hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu og meira að segja Roy Keane kennir í brjósti um hann.

Kasper Schmeichel kom Dönum til bjargar í seinni hálfleik þegar hann varði skalla Masons Mount af stuttu færi stórkostlega.

Danir og Englendingar eru jafnir að stigum í 2.-3. sæti riðilsins með sjö stig. Belgar, sem unnu 1-2 sigur á Íslendingum í gær, eru á toppnum með níu stig þegar tveimur umferðum er ólokið. Ísland er á botni riðilsins og fallið niður í B-deild Þjóðadeildarinnar. Belgía, Danmörk og England berjast um efsta sæti riðilsins sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar sem fer fram í október á næsta ári.

Allt það helsta úr leik Englands og Danmerkur í gær má sjá hér fyrir neðan.

 


Tengdar fréttir

Eriksen tryggði Dönum sigur á Wembley

Annan leikinn í röð vinna Danir góðan sigur á erfiðum útivelli. Að þessu sinni var það 1-0 útisigur á Wembley þökk sé marki Christian Eriksen í fyrri hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×