Innlent

Laxveiðin svipuð og í meðalári og mun betri en í fyrra

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Metveiði í Eystri-Rangá dregur veiðitölur ársins duglega upp. 
Metveiði í Eystri-Rangá dregur veiðitölur ársins duglega upp.  Vísir/KL

Aukning varð í laxveiði hér á landi miðað við í fyrra og var heildarfjöldi stangveiddra laxa um 42.800 fiskar, sem er um fjörutíu og sex prósenta aukning frá fyrra ári.

Þetta kemur fram í nýjum bráðabirgðatölum frá Hafrannsóknarstofnun sem birtar voru í morgun. Þar segir að aukning hafi verið í veiði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi eystra og mest varð aukningin á Suðurlandi.

Laxveiðitímabilinu er nú lokið í flestum ám landsins. Enn er þó veitt í ám þar sem uppistaðan í veiðinni er lax úr sleppingum gönguseiða, en þar stendur veiðin fram til 20. október.

Ef marka má bráðabirgðatölurnar er veiðin í ár nærri meðalveiðinni frá árinu 1974 og batnaði veiðin um þrettán þúsund og fimmhundruð laxa miðað við árið í fyrra.

Metveiði í Eystri-Rangá

Í tölum um heildarlaxveiði eru taldir villtir laxar, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði. Umtalsverð aukning varð í laxveiði í ám sem byggja veiði á sleppingum gönguseiða og var veiðin í þeim ám alls um 14.200 laxar og munar þar mest um að metveiði var í Eystri-Rangá þar sem um 8.600 laxar hafa veiðst en veiði í hafbeitaránum er ekki lokið.

Þegar litið er til veiða á villtum laxi eingöngu (ekki úr seiðasleppingum), að teknu tilliti til endurveiddra laxa, er heildarstangveiði villtra laxa árið 2020 um 23.500 laxar, sem er sjötta minnsta stangveiði villtra laxa frá því farið var að skrá veiði í rafrænan gagnagrunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×