Erlent

Net­kapp­ræðum for­seta­fram­bjóð­endanna form­lega af­lýst

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump og Biden mættust í kappræðum 29. september síðastliðinn. Þeir munu mætast aftur þann 22. október, í síðasta sinn fyrir kosningar.
Trump og Biden mættust í kappræðum 29. september síðastliðinn. Þeir munu mætast aftur þann 22. október, í síðasta sinn fyrir kosningar. Mario Tama/Getty

Nefndin sem heldur utan um kappræður forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum hefur tilkynnt að fyrirhugaðar netkappræður milli tveggja fylgismestu frambjóðendanna í forsetakosningunum í nóvember næstkomandi munu ekki fara fram.

Fyrirhugað var að demókratinn Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, og repúblikaninn Donald Trump forseti, myndu mætast í rafrænum kappræðum fimmtudaginn 15. október næstkomandi. Ástæðan fyrir því að halda átti kappræðurnar rafrænt er að Trump forseti greindist með Covid-19 í byrjun október.

Forsetinn vill ekki „eyða tíma“

Í gær tilkynnti kappræðunefndin að ekkert verði af kappræðunum, þar sem forsetinn neitaði að taka þátt í rafrænum kappræðum. Síðastliðinn fimmtudag sagðist Trump ekki vilja „eyða tíma sínum“ í að taka þátt í rafrænum kappræðum sem ákveðið hafi verið að grípa til með það fyrir augum að „verja“ Biden, sem var tilbúinn að taka þátt í slíkum kappræðum.

„Nú er ljóst að ekkert verður af kappræðunum 15. október og mun nefndin nú snúa sér að undirbúningi fyrir síðustu kappræður forsetaframbjóðendanna, sem fyrirhugað er að fari fram 22. október,“ segir í yfirlýsingu sem nefndin sendi frá sér í gær.

Kappræðurnar 22. október verða þær síðustu fyrir kosningarnar 3. nóvember og fara fram í Nashville í Tennessee.

Trump, sem greindist með Covid-19 fyrir rúmri viku, hefur þegar sett kosningaviðburði á dagskrá hjá sér. Þar hyggst hann mæta í persónu og ávarpa hóp stuðningsmanna sinna. Ráðgert er að hann haldi ræðu á svölum Hvíta hússins í dag og kosningafund í Flórída á mánudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×