Fótbolti

Svona var blaðamannafundur KSÍ: Hamrén tók skýrt fram að Ís­land ætli sér sigur gegn Dönum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erik Hamrén situr fyrir svörum á blaðamannafundi KSÍ fyrir leikinn gegn Danmörku.
Erik Hamrén situr fyrir svörum á blaðamannafundi KSÍ fyrir leikinn gegn Danmörku. vísir/vilhelm

Ísland er án stiga í 2. riðli A-deildar Þjóðadeildarinnar eftir töp fyrir Englandi og Belgíu í fyrstu tveimur leikjum sínum. Danmörk er með eitt stig. Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands, segir það skýrt að Ísland ætli sér sigur annað kvöld. Það sé kominn tími til að leggja Dani að velli og sækja í leiðinni fyrsta sigur Íslands í Þjóðadeildinni.

Hamrén hrósaði danska liðinu, sagði það vera með frábæra leikmenn.  Þá nefndi hann sögu landanna á knattspyrnuvellinum en Ísland hefur ekki enn hrósað sigri gegn Dönum. Hann telur danska liðið einnig hafa forskot þar sem það lék á miðvikudaginn en Ísland lék gegn Rúmenum á fimmtudag. Þá hvíldi danska liðið marga leikmenn sem Hamrén taldi að myndu spila á morgun. Landsliðsþjálfari Íslands taldi að Danir myndu mæta með sitt sterkasta byrjunarlið til leiks á morgun.

Kári Árnason verður ekki með íslenska liðinu í leikjunum gegn Danmörku og Belgíu eftir að hafa orðið fyrir meiðslum gegn Rúmenum. Þá er Arnór Sigurðsson að glíma við smávægileg ökklameiðsli og óvíst hver staðan er á honum.

Leikur Íslands og Danmerkur hefst klukkan 18:45 annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×