Erlent

Neyðar­stigi lýst yfir á sjúkra­húsum í París

Atli Ísleifsson skrifar
Nærri helmingur allra þeirra sjúklinga sem eru á gjörgæslu á sjúkrahúsum Parísarborgar eru covid-sjúklingar.
Nærri helmingur allra þeirra sjúklinga sem eru á gjörgæslu á sjúkrahúsum Parísarborgar eru covid-sjúklingar. Getty/Mehdi Taamallah

Heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi hafa lýst yfir neyðarstigi á sjúkrahúsum í höfuðborginni París og fjórum borgum til viðbótar vegna mikillar fjölgunar Covid-sjúklinga.

Guardian segir frá því að búið sé að fresta töku orlofsdaga starfsmanna og þá er búið að fresta öllum aðgerðum sem ekki teljast lífsnauðsynlegar.

Blaðið segir að nærri helmingur allra þeirra sjúklinga sem eru á gjörgæslu á sjúkrahúsum Parísarborgar séu covid-sjúklingar. Auk París, hefur neyðarástandi verið lýst yfir á sjúkrahúsum í Lille, Lyon, Grenoble og Saint-Etienne frá og með morgundeginum.

Heilbrigðisyfirvöld í landinu hafa greint frá því að smituðum hafi fjölgað um 18.129 í gær. Þá létust 77 manns af völdum Covid-19 í gær. Á miðvikudaginn fjölgaði nýjum smitum um 18.746 og var fjöldinn sá mesti á einum sólarhring í landinu frá upphafi faraldursins.

Skráð smit í Frakklandi eru nú 711.704 frá upphafi faraldursins. Skráð dauðsföll vegna sjúkdómsins eru nú 32.539.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×