Erlent

Hákarl snerti næstum tærnar á brimbrettakappa sem var engu nær

Samúel Karl Ólason skrifar
Hákarlinn synti mjög nærri Wilkinson.
Hákarlinn synti mjög nærri Wilkinson.

Brimbrettakappinn Matt Wilkinson komst í gær í mikið návígi við hákarl, án þess að hafa hugmynd um það. Atvikið var fangað á myndband með dróna og dróninn var notaður til að vara Wilkinson við ferðum hákarlsins og segja honum að fara í land. Hákarlinn var 2,5 metra langur nautháfur.

Wilkinson var á brimbretti sínu undan ströndum Nýja Suður Wales í Ástralíu í gær þegar dróna var flogið að honum og í gegnum hátalara á drónanum var hann varaður við því að hættulegur hákarl væri á svæðinu og honum sagt að fara í land.

Hann hafði þó ekki hugmynd um að skömmu áður hafði hákarlinn synt aftan að honum nánast snert hann.

„Þegar ég kom í land leið mér skringilega og baðverðirnir sýndu mér myndbandið og þá fattaði ég hversu nærri mér hann hefði komið án þess að ég hefði hugmynd um að hann væri þarna. Hann virðist hafa ætlað í fótinn á mér og hætt við,“ sagði Wilkingson við 9News í Ástralíu.

Hann sagði það magnað að eitthvað svo stórt hefði synt í áttina að honum og ákveðið, einungis nokkra sentímetra frá honum, að éta hann ekki. Hákarlinn hefði augljóslega geta bitið hann.

Drónar eru notaðir víða í Ástralíu til að vakta baðstrendur. Fyrir nokkrum vikum sást stór hákarl við strönd þar sem brimbrettamót fór fram. Á undanförnum dögum hafa hákarlar sést víða við strendur Ástralíu, samkvæmt 9News.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×