Skoðun

Frum­kvæðis­skylda um sótt­varnir

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar

Ráðherrar hafa frumkvæðisskyldu til að bregðast við farsóttum með virkum úrræðum til að vernda líf og heilsu fólks. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í álitsgerð Páls Hreinssonar sem hann fór yfir á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun. Ég óskaði eftir þessum fundi til að nefndarmenn gætu átt opið og heiðarlegt samtal um sóttvarnir og valdheimildir, en Páll var fenginn af forsætisráðherra, í samráði við heilbrigðisráðherra, til að skila álitsgerð um þetta mál.

Áðurnefnd frumkvæðisskylda ráðherra getur beinlínis gert þá ábyrga gagnvart lögum ef þeir bregðast þeirri skyldu sinni. 

Ráðherrum er þannig ekki aðeins heimilt að grípa til að gerða til að vernda líf og heilsu heldur er það beinlínis skylt.

Það er eðlilegt í lýðræðissamfélagi að við ræðum um valdmörk og hversu langt má ganga í því að skerða mannréttindi borgaranna. Við lestur álitsgerðar Páls, og umræður á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, er ekki annað að sjá en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi fetað það einstigi vel að verja líf og heilsu en ganga ekki um of á réttindi.

Páll er býsna skýr um það hvað er undir. Hvaða hagsmuni er verið að vernda. Grípum niður í álitsgerðina: „…þeir hagsmunir, sem verið er að vernda með opinberum sóttvarnarráðstöfunum, eru líf og heilsa borgaranna. Þetta eru veigamestu verndarhagsmunir hvers samfélags.“

Ég er sammála Páli Hreinssyni um að þetta séu veigamestu verndarhagsmunirnir. Að mínu mati hefur ríkisstjórnin uppfyllt þá frumkvæðisskyldu sem lög setja henni að vernda líf og heilsu fólks og virt meðalhófsregluna við það, ekki gengið of langt í að skerða önnur mannréttindi. Það að Páll skyldi fenginn til að leggja hlutlaust mat á þetta sýnir, svo ekki verður um villst, að ríkisstjórnin tekur þessi mál alvarlega og vill vanda til verka.

Til að skerpa enn frekar á lagaumhverfinu mun heilbrigðisráðherra í janúar leggja fram frumvarp um breytingar á sóttvarnarlögum. Ætlunin er að skýra enn betur þau úrræði sem sóttvarnarlæknir og ráðherra geta gripið til vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi, innan lands og hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum.

Opin og yfirveguð umræða um valdheimildir og sóttvarnir er af hinu góða. Álit Páls Hreinssonar er lykilatriði í þeirri umræðu.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×