Fótbolti

Aroni bannað að mæta Rúmenum?

Sindri Sverrisson skrifar
Það virðist velta á félagi Arons Einars Gunnarsson hvort hann mæti Rúmeníu í næstu viku.
Það virðist velta á félagi Arons Einars Gunnarsson hvort hann mæti Rúmeníu í næstu viku. GETTY/Simon Holmes

Al Arabi hefur rétt á því að banna Aroni Einari Gunnarssyni að spila gegn Rúmeníu í EM-umspilsleiknum mikilvæga næsta fimmtudag.

Erik Hamrén tilkynnir í beinni útsendingu hér á Vísi í dag, kl. 13.15, hvaða leikmenn verða í íslenska landsliðshópnum í leiknum við Rúmeníu og gegn Danmörku og Belgíu í Þjóðadeildinni í fótbolta. Þá skýrist hvort Aron verður með. Leikirnir fara fram 8., 11. og 14. október.

Al Arabi á fyrir höndum bikarleiki í Katar og spilar meðal annars til úrslita í Ooredoo-bikarnum 10. október.

Samkvæmt sérstökum reglum FIFA vegna kórónuveirufaraldursins hefur Al Arabi rétt á að meina Aroni að fara í landsleikina. Í reglunum segir að sé gerð krafa um fimm daga sóttkví við komu til landsins sem leikur fer fram í, eða við heimkomu aftur til landsins sem félagsliðið er í, megi félag banna leikmanni að fara í landsleiki.

Samkvæmt almennum reglum í Katar þyrfti Aron að fara í sóttkví við komuna aftur til landsins. Á þeim forsendum getur Al Arabi því haldið Aroni líkt og í síðasta landsliðsverkefni þegar Aron fékk ekki að vera með. 

Hamrén sagði þegar hann tilkynnti síðasta landsliðshóp að Aron hefði ólmur viljað koma í leikina, og Heimir Hallgrímsson þjálfari Al Arabi mun einnig hafa verið samþykkur því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×