Heimsmarkmiðin

Fyrsti alþjóðlegi jafnlaunadagurinn á morgun – frumkvæði frá Íslandi

Heimsljós
Gunnisal

Að óbreyttu tekur það rúmlega 250 ár að jafna launamun kynjanna í heiminum. Samkvæmt skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins frá síðasta ári koma karlar og konur ekki til með að fá sömu laun fyrir sömu vinnu fyrr en árið 2277. Að frumkvæði Íslands samþykkti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna ályktun í fyrra um árlegan alþjóðlegan jafnlaunadag sem haldinn verður í fyrsta sinn á morgun, 18. september.

Í tilefni jafnlaunadagsins 2020 er boðið til rafræns málþings á morgun með yfirskriftinni Ákall til aðgerða (Call to Action) en dagurinn er haldinn af alþjóðasamtökum um launajafnrétti (EPIC) sem Ísland á aðild að. Markmiðið með deginum verður að vekja athygli á aðgerðum sem stuðla að launajafnrétti. Dagurinn á einnig að vera „hvatning til frekari aðgerða til að markmiðið um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf nái fram að ganga í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna,“ eins og segir í frétt frá forsætis- og utnríkisráðuneytum.

Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) segir að ekkert ríki hafi enn náð að brúa launabilið milli karla og kvenna – og bendir einnig á að ýmislegt bendi til þess að COVID-19 farsóttin hægi á þróuninni. Jöfn laun verði ekki tryggð fyrr en eftir tvær og hálfa öld. „Til að setja það í samhengi þurfum við að fara aftur til ársins 1753 ef við förum jafn langan tíma aftur í tíma – vel fyrir amerísku og frönsku byltingarnar,“ segir í frétt UNRIC.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að nýi alþjóðlegi dagurinn sé gott tækifæri til að beina athyglinni að því kerfi sem hindrar að laun kynjanna séu jöfn. „Við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvers vegna láglaunastörf séu hlutskipti kvenna, hvers vegna lægri laun eru greidd i þeim starfsgreinum þar sem konur eru fjölmennastar, þar á meðal umönnunarstörfum. Af hverju konur vinna svo oft hlutastörf og hvers vegna tekjur kvenna lækka þegar þær eignast börn en laun feðranna hækka oft að sama skapi. Og hvers vegna konur rekist á þak í hátekjustörfum,“ segir Guterres í ávarpi í tilefni jafnlaunadagsins.

Aldarfjórðungur er liðinn frá því þjóðir heims skuldbundu sig til þess að tryggja „sömu laun fyrir sömu vinnu“ en það gerðist á fjórða kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna í Peking með samþykkt svokallaðrar Peking yfirlýsingar og aðgerðaáætlunar.

Málþingið á morgun hefst á sameiginlegu ávarpi þjóðarleiðtoga þeirra þjóða sem eiga aðild að EPIC, þar á meðal frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og forystufólki alþjóðlegra samtaka sem koma að EPIC, svo sem Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), Alþjóða efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), Alþjóðasamtökum atvinnurekenda (IOE), Alþjóðasamtökum verkalýðshreyfinga (ITUC) og UN Women.

Að loknum ávörpum fara fram pallborðsumræður með þátttakendum úr röðum fræðasamfélagsins, verkalýðssamtaka, atvinnurekenda, stjórnvalda og aðgerðasinna. Fulltrúi Íslands í pallborði verður Þorsteinn Víglundsson, forstjóri og fyrrverandi alþingismaður og félags- og jafnréttismálaráðherra.

Málþingið hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma. Nánari upplýsingar og skráning hér.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×