Fótbolti

Fyrirliði Flora Tallin setti pressuna yfir á KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Konstantin Vassiljev er bæði fyrirliði Flora Tallin og eistneska landsliðsins.
Konstantin Vassiljev er bæði fyrirliði Flora Tallin og eistneska landsliðsins. Getty/Hendrik Osula

Íslandsmeistarar KR geta komist áfram í þriðju umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar í dag þegar liðið mætir eistnesku meisturunum Flora Tallin í Eistlandi.

Leikur Flora Tallin og KR skiptir bæði félögin miklu máli peningalega ekki síst þar sem mótherjinn í þriðju umferðinni, annað hvort Linfield frá Norður Írlandi eða Floriana frá Möltu, gefur liðunum tækifæri á að komast enn lengra.

Leikurinn skiptir íslenskan fótbolta líka miklu máli því komist KR ekki áfram gæti Ísland misst eitt af fjórum Evrópusætum sínum á næsta ári. Íslensku liðin hafa tapað öllum fjórum leikjum sínum í Evrópukeppnunum í ár.

Eistneska landsliðið er 67 sætum á eftir því íslenska á nýjum styrkleikalista FIFA en frammistaða íslensku félaganna síðustu ár hefur ekki verið í samræmi við gengi landsliðsins. Eistarnir líta samt svo á að þeir séu litla liðið í dag.

Konstantin Vassiljev, fyrirliði Flora Tallin, setti þannig pressuna yfir á KR á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Það er engin pressa á okkur. Það hefur oftast verið þannig að eistnesku félögin hafa ekki verið að ná árangri í Evrópukeppnunum. Auðvitað viljum við gera vel í leiknum á morgun (í dag) og förum inn í þennan leik með því hugarfari,“ sagði Konstantin Vassiljev sem er frægasti fótboltamaður Eista.

Konstantin Vassiljev er orðinn 36 ára gamall en hann hefur skorað 25 mörk í 121 landsleik fyrir Eista og hefur þrisvar sinnum verið kosinn knattspyrnumaður ársins í Eistlandi.

Leikur Flora Tallin og KR fer fram fyrir luktum dyrum í Tallin í Eistlandi en Flora menn skoruðu á stuðningsmenn sína að horfa á leikinn í sjónvarpinu í grænum búningum félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×