Erlent

Fjölskylda Breonnu Taylor fær tólf milljónir dollara

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Veggspjöldum á borð við þetta þar sem kallað er eftir því að lögreglumennirnir verðir sóttir til saka hefur verið komið upp víða í Louisville.
Veggspjöldum á borð við þetta þar sem kallað er eftir því að lögreglumennirnir verðir sóttir til saka hefur verið komið upp víða í Louisville. Getty/Jon Cherry

Borgaryfirvöld í Louisville í Kentucky í Bandaríkjunum hafa ákveðið að greiða fjölskyldu Breonnu Taylor tólf milljónir dollara (1,6 milljarðar króna á gengi dagsins í dag) í sátt sem gerð hefur verið á milli fjölskyldunnar og yfirvalda. Sáttin felur einnig í sér að umbætur verða gerðar á starfsemi lögreglunnar í borginni.

Breonna, sem var svört, var 26 ára gömul þegar lögreglan í Lousville ruddist inn á heimili hennar og kærasta hennar í mars síðastliðnum og skaut hana að minnsta kosti fimm sinnum með þeim afleiðingum að hún lést. Lögreglan hafði fengið ábendingar um að fíkniefni væri að finna í íbúðinni en engin fíkniefni fundust á staðnum.

Nafni Breonnu hefur verið haldið á lofti síðustu mánuði í fjölmennum mótmælum víðs vegar um Bandaríkin þar sem lögregluofbeldi í garð svartra hefur verið mótmælt.

Lonita Baker, lögmaður fjölskyldu Breonnu, segir að greiðslan til fjölskyldunnar og þær umbætur sem fyrirhugaðar séu hjá lögreglunni í tengslum við sáttina séu aðeins fyrsta skrefið í því að ná fram réttlæti í málinu. Fjölskyldan vilji til að mynda að lögreglumennirnir sem bera ábyrgð á dauða Breonnu verði handteknir.

Móðir Breonnu, Tamika Palmer, kallaði eftir því í stuttri yfirlýsingu í dag að lögreglumennirnir yrðu sóttir til saka. Þá hvatti hún almenning til þess að halda áfram að hrópa nafn Breonnu í baráttunni fyrir umbótum hjá lögreglunni í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×