Handbolti

Sögðu Ragnheiði nota of margar tilraunir: Varð að skjóta því hún fékk enga hjálp

Sindri Sverrisson skrifar
Ragnheiður Júlíusdóttir er einn besti leikmaður Olís-deildarinnar.
Ragnheiður Júlíusdóttir er einn besti leikmaður Olís-deildarinnar. VÍSIR/BÁRA

Sérfræðingar Seinni bylgjunnar sýndu skotnýtingu Ragnheiðar Júlíusdóttir, í 25-24 sigri Fram á HK, skilning og kölluðu eftir meira framlagi frá samherjum hennar.

Ragnheiður skoraði 12 mörk í leiknum, eða um helming marka Fram, en þurfti til þess 21 skottilraun. Þar af voru fimm mörk úr fimm vítum, svo að hún skoraði úr sjö af 16 skotum sínum utan af velli.

„Hún er frábær leikmaður, en hún er náttúrulega pínu ein þarna. Þær voru ekki að finna sig – ekki Hildur [Þorgeirsdóttir], ekki Kristrún [Steinþórsdóttir] og Guðrún [Erla Bjarnadóttir] spilaði ekki mikið,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir í Seinni bylgjunni.

„Ég hefði viljað sjá Guðrúnu fá meiri séns á miðjunni. Ragnheiður er náttúrulega með sitt skotleyfi, en það vantaði meira framlag frá Hildi. Ég held að vörnin hjá HK hafi komið henni svolítið á óvart,“ sagði Sunneva Einarsdóttir.

„Annars hefði bara engin skotið“

Þær hrósuðu Ragnheiði fyrir sinn leik og undirstrikuðu að þar væri á ferðinni frábær leikmaður:

„En hún er samt að nota of mikið af tilraunum. Í þessum leik gat hún samt ekki gert neitt annað því hún fékk enga hjálp. Annars hefði bara engin skotið. Það er því betra að hún skjóti frekar oftar en að sleppa því. En við gerum líka meiri kröfur á hana því hún er geggjaður leikmaður,“ sagði Sigurlaug, og Sunneva bætti við:

„Heilt yfir fannst mér hún eiga mjög góðan leik, þó að hún skjóti svona oft. Ef engin önnur skýtur þá gerir hún það.“

Klippa: Seinni bylgjan - Ragnheiður Júlíusdóttir gegn HK

Tengdar fréttir

Stefán: Allt ömurlegt samkvæmt sérfræðingum

Stefán Arnarson, þjálfari Fram var sáttur við nauman sigur gegn HK. Fyrir leik hafa vafalaust flestir „spekingar“ spáð Fram öruggum sigri en Stefán blæs á slíkt tal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×