Körfubolti

Kristófer genginn í raðir Vals

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristófer Acox varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með KR.
Kristófer Acox varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með KR. vísir/daníel

Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, er genginn í raðir Vals. Hann yfirgaf Íslandsmeistara KR á dögunum vegna ágreinings sem ekki náðist að leysa eins og hann orðaði það.

Kristófer er þriðja kanónan sem fer frá KR til Vals á undanförnum tveimur árum. Fyrir síðasta tímabil gekk Pavel Ermolinskij í raðir Vals frá KR og Jón Arnór Stefánsson og Kristófer hafa nú farið sömu leið. Þá er þjálfari Vals, Finnur Freyr Stefánsson, fyrrverandi þjálfari KR og gerði liðið fimm sinnum að Íslandsmeisturum.

„Ég er spenntur fyrir komandi tímabili. Það er gaman að komast í nýtt umhverfi og fá nýja áskorun til að hjálpa mér að bæta minn leik. Það voru mörg félög sem höfðu samband við mig eftir mánudaginn en eftir að hafa skoða málin þá hreifst ég af því sem er í gangi hér á Hlíðrenda,“ sagði Kristófer við Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Vals. Hann æfði með liðinu í hádeginu.

Körfuknattleiksdeild Vals hefur gert samning við íslenska landsliðsmanninn Kristófer Acox um að spila með meistaraflokki...

Posted by Valur Körfubolti on Friday, September 11, 2020

Valur var í 10. sæti Domino's deildar karla þegar síðasta tímabil var flautað af vegna kórónuveirufaraldursins. Ljóst er að Valsmenn stefna mun miklu mun hærra í vetur.

Á síðasta tímabili var Kristófer með 9,5 stig og 6,0 fráköst að meðaltali í leik í Domino's deildinni.

Kristófer, sem er 27 ára, er uppalinn KR-ingur og hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með liðinu. Hann var valinn besti leikmaður Domino's deildarinnar 2018 og 2019 og besti leikmaður úrslitakeppninnar og varnarmaður ársins 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×